Ynjur - Björninn, fréttir frá leik

Kolbrún Garðarsdóttir að skora 6. mark leiksins
Kolbrún Garðarsdóttir að skora 6. mark leiksins

Æsispennandi leikur fyrir norðan

Ynjur tóku á móti Birninum frá Reykjavík í Hertz deild kvenna í gær. Leikurinn fór rólega af stað en mikið hitnaði í kolunum þegar á leið og ætlaði allt upp úr að sjóða um miðbik leiksins. Tvö mörk voru dæmd af og sextán tveggja mínútna dómar gefnir. Leikurinn var þó hin mesta skemmtun fyrir áhorfendur og endaði hann með öruggum 7-1 sigri Ynja.

Það var ekki fyrr en um miðbik fyrstu lotu sem eitthvað fór að gerast en þá átti Björninn skot af löngu færi sem endaði í marki Ynja en var dæmt af vegna rangstöðu. Virtist það kveikja í Ynjum sem ekki voru lengi að svara fyrir sig með marki hinu megin á vellinum og staðan því 1-0 fyrir heimastúlkum. Var það Silvía Björgvinsdóttir sem átti markið án stoðsendingar. Ekki urðu mörkin fleiri í lotunni en við tók kafli refsimínútna, þar sem Ynjur fengu fjóra tveggja mínútna dóma á móti einum dómi Bjarnarins. Þurftu Ynjur m.a. að spila síðustu 42 sekúndur lotunnar tveimur mönnum færri. Þær vörðust þó vel og sáu til þess að Björninn næði ekki að nýta sér liðsmuninn.

Ekki var liðin nema tæp mínúta af öðrum leikhluta þegar leikmaður Bjarnarins var sendur af velli og spiluðu liðin þá 4 á 4 í nokkrar sekúndur en þegar Ynjur fengu sinn fimmta mann inn á völlinn nýttu þær sé liðsmuninn og komust í 2-0. Var það Sunna Björgvinsdóttir sem skoraði eftir nokkurn barning fyrir framan markið. Örstuttu seinna bættu Ynjur við þriðja markinu en þá var það Kolbrún Garðarsdóttir sem tók stjórnina í varnarsvæði Ynja og sendi flotta sendingu upp ísinn á  varnarmanninn og fyrirliðann Ragnhildi Kjartansdóttur sem fór ein á móti tveimur varnarmönnum Bjarnarins og kom pökknum örugglega í markið. Ynjur héldu áfram pressunni á mark Bjarnarins og uppskáru fjórða mark sitt á 6. mínútu lotunnar. Kolbrún Garðarsdóttir var þá vel staðsett fyrir framan mark Bjarnarins og fékk sendingu frá Sunnu Björgvinsdóttur og skoraði með eldsnöggu skoti. Um mínútu seinna var spennan milli liðanna orðin svo mikil að allt ætlaði upp úr að sjóða. Byrjaði það með barningi fyrir framan mark Ynja þar sem varnarmaðurinn Teresa Snorradóttir og sóknarmaðurinn Vigdís Aradóttir tókust á af hörku. Í sömu skiptingu tæklaði Teresa Vigdísi fyrir framan varamannabekk Ynja og hófust þá stympingar og þurftu dómararnir að ganga á milli liðanna til að skakka leikinn. Báðir leikmenn voru í kjölfarið sendir í refsiboxið stuttu seinna kom 6 mínútna kafli þar sem fimm tveggja mínútna dómar voru dæmdir. Ynjur gerðust brotlegar í þremur af þessum fimm dómum og með svo stuttu millibili að um stund máttu þær allar þrjár sitja þétt saman í refsiboxinu. Þegar Ynjur höfðu allar afplánað sinn dóm fengu þær tækifæri á að spila manni fleiri í einhverja stund og uppskáru mark sem var dæmt af þar sem kylfan sem speglaði pekkinum inn í markið var of hátt uppi að mati dómarans. Það kom þó ekki að sök því Silvía Björgvinsdóttir komst einn á móti markmanni og skoraði fyrir Ynjur áður en lotan var úti og jók forskot þeirra enn frekar í 5-0.

Ynjur byrjuðu þriðju lotuna af krafti og Kolbrún Garðarsdóttir skoraði þegar aðeins 33 sekúndur voru liðnar af lotunni. Leikurinn gekk nokkuð rólega fyrir sig eftir það. Liðin skiptust á að sækja og fara í refsiboxið, en Ynjur stjórnuðu þó spilinu að mestu leiti, líkt og allan leikinn. Kolbrún fullkomnaði svo þrennu sína þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af leiknum og var það jafnframt síðasta mark Ynja í leiknum. Björninn náði þó að klóra í bakkann alveg í restina á leiknum þegar Ynjur voru orðnar full kærulausar í varnarleik sínum.  Var það Hrund Thorlacius sem bar upp pökkinn og sendi hann á Thelmu Matthíasdóttur sem stóð ein og óvölduð fyrir framan mark Ynja og setti pökkinn örugglega í markið. Mikil fagnaðarlæti urðu meðal leikmanna Bjarnarins því þetta var fyrsta mark Thelmu. Lokaniðurstaðan eftir sem áður 7-1 og öruggur sigur Ynja í höfn eftir hádramatískan leik. Næsti leikur Ynja er eftir rúma viku, þriðjudaginn 6. desember, en þá mæta þær stöllum sínum úr Ásynjum sem einnig spila fyrir Skautafélag Akureyrar. Ynjur unnu síðustu viðureign liðanna með tveggja marka mun en Ásynjur ætla sér örugglega að stöðva sigurgöngu Ynja. Miðað við úrslit leika í deildinni hingað til lítur út fyrir að leikir milli Ynja og Ásynja muni skera úr um hvort liðið hampi deildarmeistaratitlinum og má búast við að bæði lið leggi allt undir.

Ásgrímur Ágústsson tók myndina sem fylgir fréttinni, þegar Kolbrún Garðarsdóttir skorar 6. mark leiksins, eitt af þremur mörkum sem hún skoraði.

Mörk og stoðsendingar Ynja:

Kolbrún Garðarsdóttir 3/1

Silvía Björgvinsdóttir 2/2

Sunna Björgvinsdóttir 1/1

Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0

Refsimínútur Ynja:

18 mínútur

 

Mörk og stoðsendingar Bjarnarins:

Thelma Matthíasdóttir 1/0

Hrund Thorlacius 0/1

Refsimínútur Bjarnarins:

14 mínútur