Landsliðin

Landslið Íshokkísambands Íslands

Íshokkísamband Íslands sendir að jafnaði fimm landslið til þátttöku á heimsmeistaramót sem haldin eru á vegum alþjóða íshokkísambandsins (IIHF) ár hvert.

Í litlu sérsambandi eins og ÍHÍ er grasrótarstarfið í aðildarfélögunum það sem skiptir mestu máli, uppeldisstöðvar leikmanna framtíðarinnar. Landsliðsstarfið er svo markmið sem hvetur bæði ÍHÍ og unga leikmenn til dáða.

Leikreynsla og þjálfun landsliðs er ein helsta forsenda fyrir framförum auk tækifæra til að senda efnilega leikmenn erlendis til æfinga og keppni með félagsliðum. Vegna þess hve fá lið eru hérlendis, sem takmarkast við fjölda Skautahalla, auk legu okkar á hnettinum, er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir landsliðin að auka reynslu leikmanna sinna. Langt er að sækja verðuga andstæðinga. Hluti af leikreynslunni er fjölbreytnin, mismunandi andstæðingar með mismunandi leikaðferðir. Slíkri fjölbreytni er ekki til að dreifa í fjögurra liða deildum.

Engu að síður hafa orðið miklar framfarir á getu íslenskra leikmanna og höfum við nú þegar farið fram úr mörgum þjóðum með miklu eldri hefð fyrir íþróttinni en við eigum. Við höfum rifið okkur upp af botninum og mætum nú sífellt sterkari andstæðingum. Við ársbyrjun 2024 er karla landslið okkar númer 34 á heimslista Alþjóða íshokkísambandsins. Konurnar eru númer 27 á sínum heimslista og eiga góðan möguleika á að sækja enn ofar. Árangur liðanna gefur tilefni til bjartsýni á framhaldið og fulla ástæðu til að setja metnaðarfull langtímamarkmið.

Heimsmeistaramót IIHF