Lög ÍHÍ

Lög Íshokkísambands Íslands (ÍHÍ)

1. gr.
Heiti sambandsins er Íshokkísamband Íslands, skammstafað ÍHÍ, og er æðsti
aðili um öll mál íshokkííþróttarinnar innan vébanda Íþrótta- og
Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). ÍHÍ er aðili að Alþjóða Íshokkísambandinu,
IIHF. Aðsetur ÍHÍ og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
ÍHÍ er samband héraðssambanda og íþróttabandalaga (íshokkísérráða). Öll
héraðssambönd og íþróttabandalög ÍSÍ, sem hafa innan sinna vébanda félög er
iðka, æfa og keppa í íshokkí geta orðið aðilar að ÍHÍ.

3. gr.
Hlutverk ÍHÍ er í meginatriðum eftirfarandi:
a) Að vinna að stofnun nýrra sérráða og efla á annan hátt íshokkííþróttina í
landinu.
b) Að setja nauðsynlegar reglur, löggilda dómara, ráðstafa landsmótum og
skrá tölfræðiupplýsingar og staðfesta met.
c) Að vera fulltrúi íshokkííþróttarinnar gagnvart útlöndum og sjá um að reglur
varðandi íþróttina séu í samræmi við alþjóðareglur.

4. gr.
Málefnum ÍHÍ er stjórnað af :
a) Íshokkíþingi
b) Stjórn ÍHÍ

5. gr.
Reikningsár ÍHÍ er almanaksárið.

6. gr.
Íshokkkíþing fer með æðsta vald í málefnum ÍHÍ og skal það haldið annað
hvert ár á tímabilinu 1. mars til 31. maí. Þingið sitja fulltrúar frá þeim
íþróttabandalögum og héraðssamböndum sem mynda ÍHÍ.
Fulltrúafjöldi hvers aðila fer eftir fjölda keppnisflokka sem tekið hefur þátt í
Íslandsmótum á næsta heila tímabili á undan.
a) Fyrir hvert keppnislið í meistaraflokki karla og kvenna koma 2 fulltrúar.
b) Fyrir hvert keppnislið í 1. til 7. flokki kemur 1 fulltrúi.
c) Stjórn hvers héraðssambands/íþróttabandalags, sem hefur íshokkí innan
sinna vébanda, skal þó eiga rétt á einum fulltrúa sem hefur málfrelsi og
tillögurétt, á sérsambandsþing til viðbótar við fulltrúa félaga innan
viðkomandi héraðssambands/íþróttabandalags.
Íshokkíþing skal boðað með auglýsingu og/eða tilkynningu með eigi minna en
eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð skal senda héraðssamböndum og
íþróttabandalögum. Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á
þinginu skulu berast stjórn ÍHÍ minnst þremur vikum fyrir þing. Eigi síðar en
tveimur vikum fyrir þingið skal senda sambandsaðilum skriflegt fundarboð
(síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja
á fyrir þingið. Afrit af bæði fyrra og seinna fundarboði skal sent
aðildarfélögum ÍHÍ. Þingið getur þó tekið fyrir mál, borin upp með styttri
fyrirvara, að fengnu samþykki 2/3 hluta þingfulltrúa. Íshokkíþing er lögmætt
ef löglega hefur verið til þess boðað.

7. gr.
Á Íshokkíþingi hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt, en rétt til setu á þinginu, með
málfrelsi og tillögurétt hafa:
a) Stjórn ÍHÍ
b) Heiðursformaður og heiðursfélagar
c) Framkvæmdastjórn ÍSÍ
d) Fastráðnir starfsmenn ÍHÍ og ÍSÍ.
e) Allir nefndaraðilar ÍHÍ
Auk þess getur stjórn ÍHÍ boðið öðrum aðilum þingsetu ef hún telur ástæðu til.
Allir fulltrúar skulu tilgreindir á kjörbréfi frá viðkomandi sambandsaðila og
skal skila kjörbréfum við upphaf þinghalds. Hver fulltrúi fer með eitt atkvæði
en getur auk þess farið með annað atkvæði, samkvæmt skriflegu umboði þess
sambandsaðila sem að hann er fulltrúi fyrir. Við afgreiðslu almennra mála og í
kosningum, ræður einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra
fulltrúa, en til lagabreytinga þarf 2/3 hluta sömu fulltrúa.

8. gr.
Dagskrá Íshokkíþings skal vera eftirfarandi:
1. Þingsetning
2. Kosning 3 aðila kjörbréfanefndar.
3. Kosning þingforseta.
4. Kosning 1. og 2. þingritara.
5. Skýrsla stjórnar lögð fram.
6. Endurskoðaðir reikningar sambandsins lagðir fram.
7. Umræður og samþykkt reikninga.
8. Ávarp gesta.
9. Fjárhagsáætlun næsta árs lögð fram.
10. Kosning þingnefnda.
11. Lagabreytingatillögur.
12. Aðrar tillögur sem kynntar voru í fundarboði.
13. Teknar fyrir tillögur og önnur mál sem lögð hafa verið fyrir þingið og
þingmeirihluti leyfir.
14. Þingnefndir starfa.
15. Þingnefndir gera grein fyrir störfum sínum.
16. Umræður og atkvæðagreiðsla um lagabreytingatillögur og framkomin
mál.
17. Kosningar:
a) Stjórn og varastjórn, sbr. 10. grein
b) Tveir skoðunarmenn reikninga
c) Fulltrúa á Íþróttaþing ÍSÍ, skv. lögum ÍSÍ, á því ári sem Íþróttaþing ÍSÍ fer
fram.
18. Þingslit.
Allar kosningar skulu vera skriflegar nema aðeins sé stungið upp á
jafnmörgum og kjósa skal.

9. gr.
Aukaþing má halda ef nauðsyn krefur eða ef helmingur aðila ÍHÍ óska þess.
Allur boðunar- og tilkynningarfrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en
til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta
reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað
fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má
ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef
meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum
orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um
aukaþing sömu reglur og um reglulegt íshokkíþing.

10. gr.
Stjórn ÍHÍ skal skipuð 5 aðilum . Kjósa skal bundinni kosningu, fyrst formann
og síðan aðra stjórnaraðila. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Kjósa skal 3
aðila í varastjórn ÍHÍ. Tilkynningar um framboð til stjórnar skulu berast
skrifstofu ÍHÍ eigi síðar en 2 vikum fyrir Íshokkíþing. Stjórn ÍHÍ er heimilt að
framlengja framboðsfrest um eina viku. Aðilar sem kosnir eru í stjórn ÍHÍ geta
ekki jafnhliða setið í stjórn íshokkídeilda aðildarfélaga.

11. gr.
Helstu störf stjórnar ÍHÍ eru:
a) Að framkvæma ályktanir og samþykktir íshokkíþings.
b) Að annast rekstur ÍHÍ.
c) Að vinna að eflingu íshokkís.
d) Að semja leikreglur og reglugerðir fyrir íshokkííþróttina.
e) Að sjá um að farið sé eftir viðurkenndum reglum, lögum ÍHÍ og fyrirmælum
íshokkíþings.
f) Að ákveða stund og stað fyrir íshokkíþing.
g) Að senda framkvæmdastjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur og tilkynningar.
h) Að koma fram erlendis fyrir hönd íshokkííþróttarinnar á Íslandi.
Stjórn ÍHÍ er heimilt að ráða launað starfsfólk.

12. gr.
Ársskýrslur og ársreikningar sambandsaðila ÍHÍ skulu berast á tölvutæku
formi til ÍHÍ fyrir 15. apríl ár hvert.

13. gr.
Stjórn ÍHÍ skal í upphafi keppnistímabils, þau ár sem ekki eru haldin
Íshokkíþing, boða til fundar með formönnum þeirra félaga sem aðild eiga að
ÍHÍ. Fundurinn skal boðaður, skriflega eða á annan sannarlegan hátt, með
tveggja vikna fyrirvara. Hlutverk formannafunda er að staðfesta leikreglur,
reglugerðir og vera stjórn ÍHÍ á annan hátt til ráðgjafar. Atkvæðavægi á
formannafundi skal vera það sama og á næstliðnu Íshokkíþingi.

14. gr.
Stjórn ÍHÍ skal hafa frjálsan aðgang að öllum íshokkímótum sem fara fram
innan vébanda ÍHÍ.

15. gr .
Aðilar að ÍHÍ skulu tilkynna stjórn ÍHÍ um aðalfundi sína og skal einn fulltrúi
frá ÍHÍ eiga rétt á fundarsetu.

16. gr.
Félagaskipti skulu fara fram í samræmi við móta- og keppendareglur ÍHÍ.

17. gr.
Um öll ágreiningsmál er upp kunna að koma innan íshokkííþróttarinnar skal
farið með skv. kafla 4 í lögum ÍSÍ, um dómstóla ÍSÍ.

18. gr.
Merki ÍHÍ er hliðarmynd af fálka í bláum og rauðum lit á ljósbláum grunni.
Undir fálkanum er táknmynd um ís og undir ísnum kraumar eldur.

19. gr.
Heiðursfélaga ÍHÍ má kjósa á íshokkíþingi. Heiðursfélagar ÍHÍ hafa rétt til setu
á íshokkíþingum með málfrelsi og tillögurétt.

20. gr.
Heiðursformann ÍHÍ má kjósa á íshokkíþingi, ef 4/5 mættra þingfulltrúa
samþykkja kjörið. Heiðursformaður ÍHÍ kemur fram fyrir hönd sambandsins,
þegar stjórn þess eða formaður kunna að óska og fela honum það.

21. gr.
Tillögur um að leggja ÍHÍ niður, má aðeins taka fyrir á lögmætu íshokkíþingi.
Til þess að samþykkja slíka tillögu þarf minnst ¾ hluta atkvæða. Hafi slíka
tillaga verið samþykkt, skal gera öllum aðilum ÍHÍ grein fyrir henni í
þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulega þings. Verði
tillagan þá samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja ÍHÍ niður.

22. gr.
Sé ÍHÍ þannig löglega slitið, skal afhenda ÍSÍ eignir ÍHÍ til varðveislu.

23. gr.
Lög þessi öðlast gildi þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest þau.


Þannig samþykkt á Íshokkíþingi, 11. maí 2019

English version.