Víkingar - SR umfjöllun

Frá leiknum í gær
Frá leiknum í gær

Skautafélag Reykjavíkur heimsótti í gærkvöld Víkinga til Akureyrar í karlaflokki  og lauk leiknum með sigri heimamanna sem gerðu fjögur mörk gegn einu marki Víkinga. Með sigrinum nálguðust Víkingar topplið Bjarnarins en einu stigi munar á liðunum sem bæði hafa leikið ellefu leiki. Bæði Björninn og Víkingar hafa leikið ellefu leiki og eiga því eftir að leika fimm leiki í deildarkeppninni en  þrír af þessum fimm leikjum eru innbyrðis leikir þessara liða.

Víkingar höfðu töluverða yfirburði á SR-inga sem hafa átt erfitt uppdráttar þetta tímabilið og strax í fyrstu lotu náðu þeir 2 – 0 forystu. Bæði mörkin komu þegar Víkingar voru manni fleiri á ísnum, fyrra markið átti Ben DiMarco en það síðara Ingólfur Tryggvi Elíasson.
Fljótlega í annarri lotu komu SR-ingar sér hinsvegar inn í leikinn með marki frá Pétri Maack eftir að Víkingurinn Sigurður Reynisson hafði verið sendur í refsiboxið. Jóhann Már Leifsson jók hinsvegar forskotið fyrir Víkinga skömmu síðar og fljótlega í þriðju lotu gulltryggði varnarmaðurinn Björn Már Jakobsson sigur norðanmanna.

Mörk/stoðsendingar Víkinga:

Ben DiMarco 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/1
Björn Már Jakobsson 1/1
Ingólfur Tryggvi Elíasson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/2
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Gunnar Darri Sigurðsson 0/1
Orri Blöndal 0/1

Refsingar Víkinga: 8 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:

Pétur Maack 1/0
Zdenek Prochazka 0/1

Refsingar SR: 8 mínútur.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH