Víkingar - Björninn umfjöllun

Fyrsti leikurinn á íslandsmóti karla í íshokkí fór fram á Akureyri á laugardag. Víkingar frá Akureyri tóku þar á móti Birninum úr Reykjavík og lauk leiknum með sigri gestanna úr Birninum sem gerðu 4 mörk gegn 3 mörkum heimamanna.

Áður en fyrsta lotan í leiknum var hálfnuð höfðu liðin skorað öll þau mörk sem komu í lotunni. Bjarnarmenn riðu á vaðið, þegar þeir nýttu sér liðsmun á ísnum, með tveimur mörkum en það var Matthías S. Sigurðsson sem gerði fyrsta mark mótsins að þessu sinni. Stoðsendingar áttu Óli Þór Gunnarsson og Sergei Zak. Markið kom þegar rúmlega sjö mínútur voru liðnar af lotunni.

Innan við tveimur mínútum síðar hafði Steindór Ingason bætt við marki fyrir Bjarnarmenn og aftur var það Sergei Zak sem átti stoðsendingu.
Adam var þó ekki lengi í Paradís því Andri Freyr Sverrisson minnkaði muninn fyrir Víkinga en stoðsendinguna átti Josh Gribben. Staðan því 1 -2 Bjarnarmönnum í vil eftir fyrstu lotu.

Strax í byrjun annarrar lotu jafnaði Orri Blöndal metin fyrir SA Víkinga. Það sem eftir lifði lotunnar sóttu liðin á víxl. Einungis eitt mark bættist þó við og var þar á ferðinni Falur Birkir Guðnason  fyrir Björninn rétt undir lotulok. Staðan því 2 – 3 eftir aðra lotu.

Aðeins dró af liðunum í þriðju lotu en aftur voru það SA Víkingar sem jöfnuðu metin og að þessu sinni var það Andri Már Mikaelsson sem gerði markið. Rétt eftir miðja lotu skorðuðu Bjarnarmenn hinsvegar markið sem skildi liðin að í leikslok. Markið gerði Ólafur Hrafn Björnsson með stoðsendingu frá bróður sínum Hirti Geir Björnssyni.

Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:

Andri Freyr Sverrisson 1/0
Orri Blöndal 1/0
Andri Már Mikaelsson 1/0
Josh Gribben 0/2

Refsimínútur SA Víkingar: 30 mínútur.

Mörk/stoðsendingar Björninn:

Matthías S Sigurðsson 1/0
Steindór Ingason 1/0
Falur Birkir Guðnason 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 1/0
Sergei Zak 0/2
Óli Þór Gunnarsson 0/1
Einar Sveinn Guðnason 0/1
Hjörtur Geir Björnsson 0/1

Refsimínútur Björninn: 12 mínútur.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH