Valkyrjur hjá SA

Hjá Skautafélagi Akureyrar hefur nýtt lið hafið æfingar og er liðið opið fyrir allar konur áhugasamar um íshokkí.  Þær sem eru byrjaðar að mæta á æfingar eru konur á öllum aldri, sem þó eiga það flestar sameiginlegt að eiga börn sem stunda æfingar hjá SA.  Margar hverjar eru að láta gamlan draum rætast að prófa sjálfar íshokkí og hafa fyrstu æfingarnar tekist vonum framar. Þrátt fyrir reynsluleysi á hokkískautum hefur verið mikið fjör og framfarirnar ótrúlegar undir dyggri stjórn þeirra Söruh Smiley aðalþjálfara hjá SA og Guðrúnar Blöndal en sú síðarnefnda og Jónína Margrét Guðbjörnsdóttir, leikmenn í meistaraflokki og landsliðskonur, hafa tekið að sér að fylgja liðinu yfir fyrstu hjallana. "Það er alveg nýtt fyrir okkur að fara sjálfar í búninginn og reima skautana eftir að hafa staðið í búningsherberginu, sumar í mörg ár, og klætt og reimað litlu íshokkíleikmennina okkar. Og enn skemmtilegra er að upplifa þetta frelsi að geta dottið með tilþrifum á svellinu án þess að meiða sig", segir María Stefánsdóttir "Valkyrja", ein af forsprökkunum. Óhætt er að segja að þessi viðbót við íshokkístarfsemina er velkomin og verður áhugi og leikgleði þessara vösku kvenna vonandi til þess að efla starfið og almennan áhuga á íshokkíi.