Úrslitaleikur í kvöld kl. 20:00

Í kvöld kl. 20:00 er skyldumæting fyrir allt áhugafólk um íshokkí þegar Ísland og Tyrkland mætast í úrslitaleik um gullverðlaunin í 3. deild Heimsmeistarakeppninnar í íshokkí.  Íslenska liðið hefur unnið alla leiki sína fram að þessu á mótinu og hefur nú þegar tryggt sér sæti í 2. deild að ári þar sem tvö efstu liðin úr deildinni fara upp.  Þrátt fyrir að  tilætluðum árangri sé náð þá er það gullið sem skiptir máli fyrir leikmennina sjálfa, fullnaðarsigur og ekkert annað.
 
Tyrkir hafa bætt sig mikið síðustu misseri og íshokkíáhugi fer ört vaxandi í þeirra heimalandi og t.a.m. eru deildirnar orðnar tvær og liðum fjölgar stöðugt.  Ísland og Tyrkland hafa þrisvar mæst áður, fyrst í S-Afríku árið 1999 og svo hér heima árin 2000 og 2004. 
 
Ísland hefur alltaf unnið en síðast aðeins með tveimur mörkum og sá leikur var í járunum allan tímann.  Tyrkir hafa spilað vel á mótinu og mun leggja allt í sölurnar í kvöld og því má gera ráð fyrir spennandi og skemmtilegum leik þar sem hart verður barist.