Úrslitakeppnin hefst í kvöld

Í kvöld kl. 20:00 mætast í Laugadalnum Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar í fyrstu viðureign úrslitakeppninnar um 1. sætið.  Til þess að hampa Íslandsmeistaratitlinum þarf lið að vinna þrjár viðureignir og því geta leikirnir mest orðið fimm talsins.  SR - SA eru tvö elstu skautafélögin á landinu og hafa þau marg oft mæst á svellinu, hér áður í hinum árlegu bæjarkeppnum og svo hin síðari ár í úrslitum Íslandsmótsins.
 
Bæði lið eru firnasterk og því má gera ráð fyrir spennandi úrslitakeppni.  Skautafélag Reykjavíkur hefur styrkt sig fyrir úrslitakeppnina en varnarjaxlarnir Ágúst Ásgrímsson yngri og Ingvar Þór Jónsson eru mættir til landsins til að styrkja vörnina, en þeir eru um þessar mundir báðir í verkfræðinámi í Danmörku.  Hjá SA hefur Jón Gíslason bæst við hópinn en hann kom hingað til lands fyrir um mánuði síðan eftir að þátttöku hans með Nordic Vikings í Asíudeildinni lauk.