Úrslit helgarinnar

Um helgina fóru fram tveir leikir í Íslandsmótinu í meistaraflokki karla, þegar SA og Narfi mættust í tvíhöfða norðan heiða.  Fyrri leikurinn fór fram föstudagskvöldið og lauk með sigri SA 9 - 1.  Sá seinni fór fram á laugadagskvöldinu og þeim leik lauk einnig með sigri SA, 18 - 0. 
 
SA liðið var frekar fámennt þar sem allir leikmenn í æfingabúðum fyrir U18 ára liðið voru sunnan heiða auk þess sem erlendu leikmennirnir tveir voru fjarri góðu gamni.  Þó í SA liðinu hafi verið fámennt var enn fámennara hjá Narfa en þeim tókst þó að draga fram gamla Narfadrauga frá Akureyri því þar var m.a. mættur Heiðar Gestur Smárason fúlskeggjaður og skapgóður að vanda.  Gunnlaugur Björnsson stóð á milli stanganna hjá Narfa og hafði í nógu að snúast og sýndi oft mikil og góð tilþrif, en fór m.a. mikinn í vörninni og fór víða um svæðið.