Úrslit helgarinnar

Um helgina fóru fram tveir leikir í Íslandsmóti 2. flokks og að þessu sinni voru það Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur sem mættust á Akureyri.  Fyrri leikurinn var var á föstudagskvöldið og byrjaði með miklum látum.  Heimamenn skoruðu fyrstu tvö mörkin og stjórnuðu leiknum fyrstu mínúturnar en síðan snérist dæmið við og SR tók öll völd á svellinu og skoraði næstu 8 mörk án þess að SA næði að svara fyrir sig.  Lokatölur 8 - 2 fyrir SR.
 
Í kvöld laugardagskvöld mættust svo liðin að nýju og nú var meira jafnræði.  Bæði lið voru sterk en fyrst og fremst voru það markmennirnir sem voru í aðalhlutverki, þeir Ævar Björnsson hjá SR og Ómar Smári Skúlason fyrir SA.  Þeir félagar sáu til þess að liðunum tókst aðeins að skora sitt hvort markið þrátt fyrir fjölmörg tækifæri á báða bóga.  Hart var barist fram til leiksloka en niðurstaðan jafntefli 1 - 1.