Fundur aganefndar, haldin í netheimum 7. maí 2025,
Fyrir er tekin atvikaskýrsla dómara frá leik SR og SA Víkinga í U18 aldursflokki sem leikinn var á Akureyri Sunnudaginn 4. Maí 2025. Aganefnd hefur atvikaskýrslu dómara og upptöku frá beinu streymi leiksins til að meta atvikið.
Á tímanum 58:14 í þriðja leikhluta leiksins er verið að taka dómarakast eftir mark, á miðju uppkastspunkti svellsins. Um leið og pekkinum er sleppt taka tveir leikmenn sem ekki voru í dómarakastinu en standa hver á móti öðrum af sér hanska og hlífðarhjálm og hefja slagsmál. Þetta er hegðun sem er á engan hátt hluti af leiknum.
Aganefnd er algerlega samstíga í því að svona hegðun verður ekki liðin og telur nefndin þetta vera alvarlegt brot á reglum leiksins ásamt því að vera gróft agabrot af engu tilefni svo séð verði.
Ábyrgð þeirra sem svona haga sér er mikil, sérstalega þar sem yngri iðkendur gætu litið á svona uppákomur sem sjálfsagða framkomu innan leiksins í barna og unglingaflokkum. En það verður aldrei samþykkt. Innan íshokkíhreyfingarinnar er fastur rammi utan um ýmiskonar atvik sem upp geta komið í hita leiksins og oft eru mikil átök. Þrátt fyrir það, ber leikmönnum að sýna af sér háttvísi og heilindi. Framkoma sem þessi fer þvert gegn gildum íshokkíhreyfingarinnar að mati aganefndar.
Úrskurður:
Leikmaður SA Víkinga númer 16 og leikmaður SR númer 68 í umræddum leik fá hvor um sig 3 leiki í bann. Bannið er allsherjarbann og fylgir leikmönnunum yfir á næsta keppnistímabil.