ÚRSKURÐUR AGANEFNDAR 15.08.11

Teknar eru fyrir atvikaskýrslur dómara og eftirlitsdómara úr leik SA Víkinga og SR sem leikinn var 8.3.2011. Til grundvallar liggja skýrslur dómara og eftirlitsdómara.

Tekin er fyrir dómaraskýrsla vegna leikmenns Skautafélags Reykjavíkur nr. 24, Arnþórs Bjarnasonar, í leiknum hlaut leikmaður SR nr. 24 Leikdóm (Match penalty) fyrir að hrækja.
Úrskurður: Arnþór Bjarnason hlýtur einn leik í bann.

Aganefnd ræddi einnig framkvæmd leiksins en fram kom í áðurnefndum skýrslum að í hátalarakerfi hússins hefði verið leikin tónlist og í textum hennar hafi verið veist að nafngreindum leikmönnum gestaliðsins ásamt því að hátalarakerfi hússin hafi verið notað til þess að hvetja heimaliðið til dáða.

Til þess er tekið í umræddum skýrslum að forráðamenn SA hafi brugðist strax við athugasemdum eftirlitsdómara og stöðvað athæfin þegar þau komu upp. Í samtali aganefndarmanna við forráðamenn SA kom fram að megin orsökina sé að finna hjá yfirspenntum áhanganda sem í þessu tilfelli var einnig hljóðmaður leiksins.

Aganefnd brýnir fyrir aðildarfélgögum sínum að ekki verða liðið að veist sé að einstaka leikmönum í hljóðkerfi skautasvella vegna kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Einnig að heimaliðum er með öllu óheimilt að nota hátalarakerfi skautahallanna til þess að hvetja sitt lið. Í leikreglum fyrir íshokkí, bæði í reglubók og dæmabók er að finna nákvæmar útlistanir á því hvernig á að nota hátalarakerfi húsanna í kringum leikinn.

Einnig vill aganefnd árétta að: Það er á ábyrgð heimaliðs að manna sína leiki á heimavelli á viðeigandi hátt. Allt starfsfólk leikja starfar á ábyrgð þess félags sem á heimaleik hvert sinn.

Í þessu ljósi er aganefnd einróma sammála um að sekta Skautafélag Akureyrar um hóflega táknræna upphæð með því fororði að ef áframhaldandi sambærileg vandamál koma upp í Skautahöllinni á Akureyri verði þyngri sektum beitt.


Úrskurður: Skautafélag Akureyrar skal greiða kr. 30.000.- í sekt til ÍHÍ.

Fh. Aganefndar

Viðar Garðarsson, formaður