Umfjöllun Fréttablaðsins í gær

Fréttablaðið birti í gær frétt um félagaskipti innan íshokkíhreifingarinnar. Formaður ÍHÍ sendi Fréttablaðinu athugasemd við fréttina sem Fréttablaðið hefur ekki séð ástæðu til þess að birta þrátt fyrir óskir þar um. Því er þessi athugasemd birt hér í heilu lagi.

Ágæta Hólmfríður

Ég vill byrja á því að þakka þér fyrir ágætlega skrifaða grein í morgun þar sem að þú fjallar um gjaldtöku Íshokkísambands Íslands fyrir félagsskipti.  Það er ein veigamikil rangfærsla í grein þinni sem ég vildi gjarnan leiðrétta og einnig benda á eitt atriði sem alveg hefur verið sleppt að minnast á en er mikilvægt í samhenginu. 

Fyrst rangfærslan: Þú hefur eftir Guðrúnu Ólafsdóttur móður piltsins að hún hafi leitað til umboðsmanns barna og það er gefið í skyn að umboðsmaður barna hafi þegar fjallað um málið. Þetta er ekki rétt. Rétt er að Guðrún Ólafsdóttir hafði samband við skrifstofu umboðsmanns barna nánar til tekið starfsmann þar sem heitir Hafdís Gísladóttir. Hafdís þessi ritaði Guðrúnu tölvupóst þar sem reifaðar eru lagagreinar sem gætu hugsanlega átt við í þessu máli. Ljóst er á svari skrifstofu Umboðsmanns barna að verulega skortir á þær upplýsingar sem starfsmaðurinn er að túlka enda var aldrei beðið um greinargerð eða skýringar frá Íshokkísambandi Íslands af hálfu skrifstofu umboðsmanns barna. Umboðsmaður barna hafði á þessum tíma ekki tekið að sér að skoða þetta mál og því er rangt að vísa í tölvupóst frá starfsmanni stofnunarinnar sem bréf eða álit frá umboðsmanni sjálfum.  

Hitt atriðið sem mikilvægt er að komi fram er að undirritaður hafði samband við Guðrúnu Ólafsdóttur móður piltsins í síma og tjáði henni að Íshokkísamband Íslands hefði heimildir og fordæmi til þess að fella niður þjónustugjöld sem þetta, á félagslegum forsendum. Í þessu símtali bauðst undirritaður til þess að bera upp slíkt erindi á stjórnarfundi Íshokkísambandsins sem fyrirhugaður var í hádegi daginn eftir.  Guðrún óskaði eftir því að fá að hugleiða málið. Morguninn eftir stuttu fyrir reglubundin stjórnarfund Íshokkísambandsins hringdi Guðrún og afþakkaði boðið.

Ég fer þess formlega á leit að þessar athugasemdir mína verði birtar á síðum Fréttablaðsins.

Með íþróttakveðju,

Viðar Garðarsson 

formaður Íshokkísambands Íslands, Afrit sent á stjórn ÍHÍ, skrifstofu ÍHÍ, framkvæmdastjóra ÍSÍ, ritstjórum Fréttablaðsins.