Undir tuttugu í Tallin, fjórða færsla, skrifað á sunnudagskvöldi.

Jæja... þá er það komið á hreint, íslenska hokkílandsliðið undir tvítugu á
góða möguleika á að vinna gull  í einhverju skrítnu landi eins og Kína, sem féllu í þriðju deild í Rúmeníu rétt í þessu.

En þetta þýðir ekki að íslenskt hokkí eigi heima í þriðju deild. Það er
nefnilega margt skrýtið sem skeður í svona keppni og tilviljanir og
sveiflur í frammistöðu ráða miklu um úrslit. Þess vegna eru margar
úrslitaviðureignir leiknar sem besta af fimm leikjum samanber í okkar
íslandsmeistaramóti.

Íslenska liðið er búið að standa sig frábærlega á margan hátt, innan og
utan vallar. Maður þarf ekki að hugsa sér betri félaga á ferðalagi, þar
með talið fararstjórnina og leikmennirnir hafa í einu og öllu (nema
kannski bindishnútum?) sýnt af sér fagmennsku og prúðmennsku.

Dagbókarritari lagðist í hnerra, nefrennsli og bakverk eftir leikinn við
Spánverja og fór ekki með til þess að sjá síðasta leikinn sem réði
úrslitum fyrir okkur hvort við fengjum að vera áfram í þessari deild.
Nu sé ég á netinu að Eistunum tókst ekki að sigra Belgana fyrir okkur eins
og þeir höfðu lofað svo með þeim tveimur stigum sem niðurlendingar færðu
Belgunum þá tókst þeim að halda sér uppi á okkar kostnað.
Leikurinn við Spánverjana var eins og markatalan segir til um, jafn en
samt ekki nógu. Það sem okkar menn höfðu var breiddin og baráttugleðin.
Þeir áttu fjölda hættulegra sókna og marktækifæra sem ekki skiluðu sér.
Varnarleikurinn hefur eins og ég áður hef sagt verið aðalsmerki
íslendinganna á þessu móti og vakið verðskuldaða athygli og íslendingar
komið almennt á óvart hér.

Nú er bara að halda áfram. Ísland er á uppleið sem hokkíland og þó við
höfum fallið af brúninni núna þá kemur þetta örugglega í næstu umferð ef
hokkístarfið á Íslandi fær að þróast áfram eins og það á skilið.
Ekki slæmt að geta farið og sótt einn pening í viðbót áður en við tryggjum
okkur endanlega sess í annarri deild. Það þarf nefnilega eitthvað
alvarlegt að gerast ef þetta lið ekki á fullgóðan möguleika á sigri gegn
þeim sem þar eru að berjast.

Sú keppni fer væntanlega fram í janúar að ári og þangað til er bara að
vinna að áframhaldandi uppbyggingu liðsins.

Það er best að klára þessi pistlaskrif með því að nefna einn stóran og
mikilvægan þátt í framförum og velgengni liðsins og það eru
óviðjafnanlegir leiðtogahæfileikar Josh Gribben þjálfara sem stýrði þeim
til silfurs í Istanbul og nú í góðri keppni hér.
Hann hefur einstakt lag á að leiðbeina, tala þá til, fá þá til þess að
hugsa um réttu hlutina og einbeita sér að verkefninu. Það er unun að
fylgjast með honum þegar hann meðhöndlar þá á leikmannafundum , í
búningsklefanum og á bekknum af stakri kunnáttu enda er hann langt kominn
i sálfræðinámi fyrir utan að hafa alist upp með hokkí frá blautu
barnsbeini.

Mikið á íslenskt íþróttalíf gott að hafa ser til fulltingis þjálfara eins
og Josh og Sergei sem ég hef mjög svipaða reynslu af í fyrri
keppnisferðum. Ég á erfitt með að hugsa mér meiri úrvalsmenn í þessu
hlutverki.