Undir tuttugu í Tallin, þriðja færsla, skrifað á fimmtudagskvöldi.

Tíminn líður hratt í Tallin.
Í gær var  ekki kappleikur en æfing og göngutúr um bæjinn. Deginum lauk
með liðsfundi þar sem menn slettu úr klaufunum og skemmtu sér við dans og
söng (myndband á leið á Jútjúb!), spurningaleiki og selskapsleiki ýmiss
konar.
Svo fengu menn góða hvíld til klukkan hálf tíu.

Nú er þriðji leikurinn á enda. Hann fór markatölulega eins og við mátti
búast en liðið hefur bara vaxið síðan í fyrradag.
Íslendingarnir eru satt að segja að koma á óvart hér í þessari keppni.
Það var virkilega gaman að horfa á þennan leik sem okkar menn spiluðu
gríðarlega vel lengst af.
Eins og við var að búast tók þreytan smám saman völdin og þá fyrst gátu
Niðurlendingarnir náð að nýta sína tæknilegu yfirburði og reynslu. Þangað
til tíu mínútur lifðu leiksins stóðu Íslendingarnir vel uppi í hárinu á
þeim appelsínugulu og ég tók  greinilega eftir því hversu áhyggjufullir
liðsstjórar og þjálfarar þeirra voru allt fram í það síðasta.
Okkar menn geta ekki skotið betur en svona lið, þeir geta ekki skautað frá
þeim en þeir geta unnið saman og beitt "taktík", vilja og baráttugleði svo
um munar.
Þetta var sigur á mörgum slíkum sviðum.
Eins og ég sagði í síðustu færslu eftir leikinn í fyrradag þá er bara ein
leið fyrir hokkí á Íslandi og það er upp á við.
Nú tóku okkar menn nokkur góð skref upp tröppurnar.


Varnarleikur hefur oft verið akkilesarhæll Íslendinga. Nú er það okkar
mikli styrkur. Snorri varnarmaður var maður leiksins í dag.
Sóknarleikurinn er ekki slæmur þegar þeir komast vel af stað og færin
okkar voru flest mjög hættuleg og góður markvörður þeirra fékk vel að
reyna sig. Ævar ekki síður og stóð hann sig að vanda með 47 varin skot.

Andri var orðinn svo hress að honum var hleypt á og stóð sig vel. Gunnar
er með einhverja magapínu en hann tók hana bara hressilega út á
andstæðingunum.
Allir komu heilir heim þó sumir væru komnir með nýjar líkamsskreytingar,
til dæmis Carl sem á eftir að fá lítið, fallegt glóðarauga.

Á morgun er það Frakkland sem fær að finna fyrir því.