Undir tuttugu í Tallin, önnur færsla, skrifað á þriðjudagskvöldi.


Allir eru frískir nema Andri sem vaknaði með 39 stiga hita og hausverk en
virðist ekki vera með inflúensu, bara einhvern flökkuvírus. Miklu hressari
í kvöld og ég yrði hissa ef hann verður ekki orðinn fínn fyrir helgina.
Hann sleppti auðvitað leiknum.
Sigursteinn á 17 ára afmæli í dag! Félagarnir sungu fyrir hann í rútunni á
leið á leikinn og svo fékk hann kraftmikinn söng og köku með stjörnuljósum
eftir kvöldmatinn sem snæddur var upp úr klukkan ellefu.
Á morgun er frídagur. Margir leikmannanna eru búnir að panta sér
heilkroppsnudd hér á hótelinu og hlakkar óskaplega til.
Belgarnir og Hollendingarnir eru reyndar með sína eigin sjúkranuddara með
sér. Þær stúlkur eru ekki ári eldri en tvítugt að því er virðist.
Ég og Markku, finnski yfirlæknir alþjóðasambandsins sem hér er staddur
höfum báðir fundið óskaplega mikið til í bakinu og öxlunum undanfarna daga
en þær harðneita að meðhöndla aðra en sína eigin leikmennin.
Fúlt, en það að mátti þó reyna,  hehe...  :-)

Svo kemur hérna smá hugleiðing í tilefni atburða dagsins.

Í dag sannfærðist ég enn frekar um það hversu mikla framtíð hokkí á á Íslandi
Hokkí, það er íþrótt sem við hlið listskautadans á mjög mikla möguleika á
að verða ein vinsælasta almennings- og afreksíþrótt á Íslandi.
Hin hraða, jákvæða þróun í íslensku hokkíi undanfarin ár, þrátt fyrir
aðstöðu- og stuðningsleysi sýnir okkur að við getum náð langt, meira að
segja mjög langt. Það sást líka í dag. Ég held ég hafi sjaldan verið jafn
hrifinn af frammistöðu íslensks liðs eins og í fyrri helmingi leiksins við
Eista í dag. Að það féll svo á þreytu og reynsluleysi í miðjum leik gegn
virkilega verðugum andstæðingum kastar engum skugga á ánægju mína með
þetta vaxandi lið!
Í dag unnu íslendingar enn einn sigur. Þrátt fyrir lokaúrslit sem ekki
líta sérlega glæsilega út á blaði þá var það sigur engu að síður. Íslensku
U20 leikmennirnir sýndu mér og öðrum þann skemmtilegasta og mest
"innspíreraða" leik sem ég hef ennþá séð. Þeir mættu gestgjöfunum á
svellinu með þeim krafti, elju, áhuga og baráttuanda sem þurfti og
"rúlluðu" yfir Eistana sem varla vissu hvaðan á sig stóð veðrið.
Til þess að skilja leikinn í dag og úrslit hans þarf að muna að íshokkí
hefur í raun ekki verið stundað sem keppnisíþrótt á Íslandi nema rúmlega
áratug.
Það sem íslenskt hokkí er að gera hér er að ná í reynslu og þroska.
Við erum að spila við betri lið á þessu móti. Það togar okkur upp á við.
Nú þurfa okkar leikmenn að klára að tryggja setu U20 liðsins í annarri
deildinni og möguleikinn á því er ansi góður ennþá eftir verðskuldaðan
sigur á Belgum í gær.
Það er nefnilega mikill og mikilvægur munur á því að spila í annarri deild
miðað við þá þriðju. Í þriðju deild eru liðin almennt reynslulítil og
leikur við þau dregur okkur niður á þeirra plan í stað þess að vera
dregnir upp á við af því að spila við jafningja og ofurefli eins og hér er
við að eiga.

Það er bara ein leið.... inn í framtíðina og upp.

Þegar svo þessir menn sem hér eru að leika koma með börnin sín á svellin
sem búið verður að byggja víða um landið, þá verður hokkímenningin í
alvöru í blóma. Þeas ef við höldum vel á spöðunum og sjáum til þess að
undirbyggingin haldi áfram.

Kveðja frá Tallin