Undir tuttugu í Tallin - fyrsta færsla

Ferðalagið hingað til Tallin var óvenju vandræðalítið þrátt fyrir smá stress þegar Svíþjóðarbúarnir Óli og Bjössi ætluðu að innrita sig í Kaupmannahöfn. Annar þeirra hafði nefnilega týnt vegabréfinu og átti ekki neinar sönnur á sjálfum sér nema snjáð unglinga-Landsbankakort með gallabuxnaáferð og ógreinilegri andlitsmynd. Þrátt fyrir þetta tókst aðalháyfirfararstjóranum (þetta lagði hann sjálfur til að kalla hlutverkið :-) það ómögulega, að sannfæra Danina um að kortið teldist fullgilt persónubevís. Hvort hann borgaði þeim eitthvað undir borðið fyrir skal látið órannsakað. Það er svo búið að setja íslenska ræðismanninn hérna í málið svo við komum stráknum úr landi aftur ef hann finnur ekki vegabréfið í farangrinum því ekki er sérlega líklegt að þessi litla ljósgráa lygi dugi á fyrrum Sovét-embættismenn. Reyndar kom til nokkurra orðahnippinga þegar átti að samþykkja strákinn inn í keppnina á "vegabréfafundinum" sem alltaf er haldinn fyrir svona mót. Hollendingar ætluðu að nota tækifærið til að hefna Icesave lítillega en til allrar hamingju var til afrit af gamla passanum og með Landsbankakortinu góða til viðbótar þá skar gamli maðurinn Jan-Åke (Edvinsson, forseti alþjóðasambandsins í 21 ár) úr um að þetta væri fullgott og sagði steggjunum að hætta að atast út af lítilræði. Það var þétt hríðarmugga við lendinguna í Eistlandi og allt á kafi í snjó. Hér segja heimamenn að slík snjóþyngsli séu mjög óvanaleg á þessum tíma árs, veturinn byrji venjulega ekki fyrir alvöru fyrr en í janúar. Hitinn er notalegur, um 6 gráður undir frostmarkinu. Tveir leikmenn, Snorri og Máni lentu nánast samtímis okkur beint frá Osló. Og viti menn allar töskurnar fimmtíu skiluðu sér! Við áttum æfingatíma skömmu eftir lendingu svo farið var beint í höllina og tíminn nýttur vel. Lúxusmáltíð, steiktur kjúklingur með alls kyns fíneríi beið okkar svo á hótelinu klukkan að verða ellefu um kvöldið, framreidd af elskulegu fólki sem fannst ekkert tiltökumál að bíða með matinn handa okkur. Hótelið er með þeim betri í bænum, staðsett á besta stað í miðbænum. Þjónustan er frábær svo þetta lofar góðu ef það varir. Josh sleppti morgunæfingunni í dag svo allir voru í góðu formi og vel hvíldir þegar farið var til leiks í skautahöllinni Jäähalli sem er stór og vel búin með tveimur ísleikvöngum í fullri stærð.  Við erum með okkar búningsherbergi við æfingasvellið þar sem ísprinsessurnar hafa verið að æfa í allan dag og ég hafði satt að segja hálfgerðar áhyggjur af einbeitninni í okkar mönnum með þessar gullfallegu og frábærlega fimu stúlkur dansandi og stökkvandi án afláts fyrir utan klefann okkar. Fyrsta viðureign mótsins var okkar leikur við Belgíu klukkan þrettán. Belgarnir litu frekar ógnvænlega út í svörtum göllum, með ákveðinn og sjálfsöruggan svip. Íslendingarnir léku í hvítu göllunum. Mér finnst sjálfum þeir vera flottastir í þeim og samkvæmt kennisetningum íþróttasálfræði eiga þeir að gefa ógnvænlegra viðmót en dekkri litir. Okkar menn (ég skrifaði fyrst drengir en áttaði mig strax á villunni) hafa ekki haft mikinn tíma til undirbúnings saman og mér leist hreinlega ekkert á blikuna fyrstu mínúturnar. Svartklæddu Belgarnir virtust mun leikreyndari og ofboðslega ágengir niður í okkar varnarsvæði. Meginþunginn í fyrsta leikhluta var okkur í óhag og skotin óþægilega  miklu fleiri á Ævar . Það var augljóst að Belgía skartaði þarna nokkuð vel samæfðu liði og mörgum tæknisterkum hokkíleikmönnum, sem kunnu og voguðu sér að atast miskunnarlaust í andstæðingunum og vissu oftast vel hvar samherja var að senda á. En, einmitt þegar ég, skraufþurr í munninum af streitu, hafði hlaupið út að sækja vatnsflöskuna mína í lok fimmtu mínútu, þá komst Ólafur Hrafn í laust færi, vann sig upp völlinn og sneri á markvörð surtanna sem lítið hafði haft fyrir stafni fram að þessu. Það er þó góð bót í máli fyrir mig að leikurinn var tekinn upp og ég fæ tækifæri á eftir, að skoða upptöku af leiknum. Svo geri ég ráð fyrir að fá afrit til þess að klippa út mörkin fyrir ykkur og setja á Jútjúb. Með þessu hefur ísinn greinilega  brotnað því þótt einn af surtunum klúðraði inn jöfnunarmarki í lok leikhlutans þá náði litla Ísland í vaxandi mæli tökunum upp frá því. Okkar menn héldu refsibekknum vel volgum í fyrri hluta leiksins  með alls kyns óþörfum en hættulitlum brotum sem þeir hafa ekki ennþá lært nógu vel að forðast. Hér er engin elsku-mamma dómgæsla. Allt á hreinu með reglurnar fyrirfram, vel þjálfaðir dómarar og tekið af festu og hörku á öllu samkvæmt bókinni.   Þrátt fyrir að leikurinn virtist í fyrri hluta ójafn okkur í óhag endaði leikurinn fimm-eitt Íslandi í vil. Ekki síður athyglisvert að skotin voru 32 frá Belgum en 25 okkar. Af hverju unnu þá okkar menn? Fyrsta og veigamesta ástæðan held ég að hafi verið að okkar leikmenn komu með hjartað og heilindin til leiks.  Þetta er úrvalslið, fínir strákar og jákvæðir. Liðsheildin er sterk og nýliðarnir koma vel inn í andann og læra fljótt hvað gildir hér. Í öðru lagi þá var varnarleikurinn einstakur, sérstaklega í "penalty killing" með færri leikmenn. Þeir héldu hreinu í 14 refsimínútur og það gegn nokkuð öguðu og æfðu powerplay Belganna. Í þriðja lagi þá tókst þeim að halda haus leikinn á enda.  Kannski af því að þeir komust yfir í upphafi? En hvað oft hefur maður ekki séð slíka óskastöðu falla dauða til jarðar þegar í harðbakkann slær og mjólkursýran fer að segja til sín? Nei, sjálfstraustið hélt til enda þrátt fyrir verðuga og öfluga andstöðu og okkar menn virðast vera í góðu líkamlegu formi og hafa úthaldið sem þarf. Í fjórða lagi þá sýndu nýliðarnir hörkuleik allir sem einn. Það er unun að sjá hraðann og viljann hjá yngri strákunum og hugsanlegar áhyggjur af því að hafa 6 (eða var það 7?) nýliða með urðu að engu í þessum leik. Ég held að eldri strákarnir þurfi ekkert að skíra þá. Þeir sönnuðu sig sem fullgildir leikmenn í dag. Sem sagt heilsteypt lið á margan hátt. Í fimmta lagi þá stóð Ævar sig frábærlega í markinu. Varnarhlutfallið hjá honum var 31/32.  Var hann að verðleikum krýndur íslenski leikmaður viðureignarinnar og fékk stærðar kristalklump fyrir í lok leiks. Mörkin skoruðu Ólafur (1), Máni (1) Brynjar(2) og Tommi (1) Svona fór það Á morgun keppa þeir seinni partinn við eitt sterkasta lið mótsins, Eistana sjálfa. Ef marka má frammistöðuna í dag, þá munu okkar  menn fara létt með að gera sitt besta gegn þeim, þótt þeim takist kannski ekki að ná hreðjatakinu sem þarf á þá. Eða   hver veit? Bestu kveðjur frá Tallin