Miklagarðsför Íslenska Ísknattleikslandsliðsins undir tvítugu.
Fimmta dagbókarfærsla

Úff þetta var skelfileg langloka sem ég skrifaði í gærkveldi, allt í belg og biðu. Enda var ég svo uppnuminn af því sem við upplifðum í skoðunarferðinni.
Eitthvað af því getið þið séð á myndunum sem nú eru komnar inn í albúmið á http://picasaweb.google.com/bjorn.geir.leifsson/Istanbul_U20?feat=directlink
Ég bæti svo myndatextum við eftir því sem ég fæ tíma til.
Myndir úr leiknum í dag eru líka þarna.

Nú verð ég stuttorðari því það skeði aðeins eitt í dag: Landslið Íslands í ísknattleik undir tvítugu lyfti sér upp í aðra deild heimsmeistarakeppninnar. Það var meginmarkmið þessarar keppni og það tókst með verðskulduðum sigri á Nýsjálendingum.
Leikurinn var allfjörugur þar sem liðin spiluðu bæði líkamlegt hokkí (e. physical) sem þýðir meðal annars mikið um árekstra og beitingu líkamsburða. Brögðin voru að mestu eins og vera ber, hreinleg og lögleg á báða bóga en því miður voru þarna nokkra Nýsjálenska steggi sem greinilega telja sig gera gagn með því að pota og pretta og reyna að æsa andstæðinginn til að missa stjórn á sér og brjóta af sér, til dæmis með því að pota kylfuenda á viðkvæma staði þegar dómarinn sér ekki til. Það tókst þeim illa því okkar menn sýndu allan tímann yfirburði og héldu nánast alltaf stillingu sinni. Ég hef ekki orðið var við að neinn okkar manna sýni slíka hegðun, sem ég álít í hæsta máta óíþróttamannslega.
Það er nú orðið ljóst að andstæðingurinn í leiknum annað kvöld um sigur á mótinu verður Ástralía. Þeir eru verðugur andstæðingur og ég held að það sé nokkuð jafnt með þessum liðum. Ef okkar menn halda haus og spila af sömu einbeitni og fagmennsku og þeir hafa hingað til gert þá eru möguleikarnir góðir.

Í leikinn í dag vantaði Gunnar Darra sem fékk veirupestareinkenni í gærkveldi en er heldur að hressast núna og Hilmar sem versnaði aftur af eftirstöðvum BörgerKing magapestarinnar. Hvorugur er öruggur fyrir morgundaginn. Við sjáum hvað setur. Engin alvarleg meiðsl urðu í dag þó marga kenni til hér og þar eftir alla pústrana. Matthías Máni var studdur haltrandi af ís en reyndist vægt marin á hnéskel og Jóhann Leifsson var létt vankaður eftir eina byltuna en báðir voru fljótlega komnir í fullan gang aftur og kenna sér lítið meins.
Ef þið undrist á myndunum að Ævar er ekki með neitt yfir saumunum á kinninni þá er það einfaldlega vegna þess að það tollir ekkert þarna í svitaflóðinu á æfingum og leik og þetta hefst ágætlega við svona.
Ég reikna með að taka saumana á mánudagsmorgun.

Eftir leikinn var heillandi að sjá Landsliðið halda utanum axlir hver á öðrum og taka hátt og bara ansi hreinlega undir þjóðsönginn sinn.
Hann var leikinn í fjórða sinn í dag.

Á morgun kemur í ljós hverjir fá gullpeningana. Ætli þjóðsöngurinn okkar hljómi í fimmta sinn hér í Miklagarði?