Miklagarðsför Íslenska Ísknattleikslandsliðsins undir tvítugu.
Önnur dagbókarfærsla Blóðfórnin.

Það kom að því að maður fékk að vera sjálfur pínulítið í sviðsljósinu.
Strákunum fannst greinilega að það þyrfti að vígja þessa nýju íshöll almennilega og að hætti sannra víkinga svo á æfingunni í dag gaf Matthías Máni Ævari markverði utanundir með fljúgandi kinnhestskoti í hjálmgrinindina sem bognaði undan þessum 160 gramma frosna gúmmíklumpi á um það bil 100 til 120 kílómetra hraða á klukkustund . Rétt eins og í góðri Íslendingasögu þá sprakk skinnið fyrir og dreyrinn litaði ísinn... allavega einhver smá sletta sem Ævar mátti alveg við því að missa.
Fyrir bragðið fékk ég að prófa litla sniðuga skurðlæknasettið sem Gauti læknir kom fyrir í töskunni. Líklegast hefur það verið hannað til nota í stríðinu. Það væri meira að segja hægt að taka botnlanga með þessu dóti en Ævari leist ekkert á það og bað um að fá að halda honum þó ég byði upp á að taka hann í leiðinni án endurgjalds.
Þau virtust frekar dolfallin tyrknesku sjúkraliðarnir sem horfðu á aðfarirnar þegar þessir villimenn barasta stilltu upp vígvallarskurðstofu og björguðu sér sjálfir með þessi ósköp.
Það fengu auðvitað allir hland fyrir hjartað þegar þetta gerðist, líka ég, en skurðurinn reyndist samt ekki sérlega alvarlegur þó áberandi sé, nær ekki djúpt, beinið óbrotið undir og Ævar ekki meira vankaður en venjulega. Hann verður alveg jafn fallegur aftur, allavega áður en hann giftir sig.
Eitthvað gekk illa að finna einhvern sem þorði að þrifa víkingablóðið af ísnum og á endanum skilst mér að Josh hafi staðið í því svo restin af æfingatímanum nýttist.

Þess ber að geta að það er alltaf sjúkrabíll og sjúkralið á staðnum, jafnvel á æfingunum eins og í dag. Hefði ég ekki haft græjurnar meðferðis og prófað þetta nokkrum sinnum áður þá hefðum við einfaldlega fengið skutl á næsta sjúkrahús og eflaust fína þjónustu þar.

Ég sé að Viðar hefur lagt myndir af þessu í albúmið svo þeir sem þora geta kíkt á það.

Það gerðist nú ekki margt í dag fyrir utan ofanskráða blóðfórn.
Við áttum æfingatíma um miðjan dag í dag svo það var ekki fýsilegt að fara í bæinn og lenda í eftirmiddagsumferðinni. Því ráðgerum við almennilega skoðunarferð á föstudaginn en þá er spáð allt að fimmtán gráða sumarhita og blíðviðri

Börgerking-pestin kom harðast niður á Andra fyrirliða, sem fékk að hvíla sig frá æfingunni í dag og missti fyrir bragðið af þessu fjöri. Hann er óðum að jafna sig og mér finnst ólíklegt að við verðum án hans í leiknum á morgun.
Loks var það úlnliðurinn sem Orri meiddi sig á í heimaleiknum við Björninn um daginn. Hann virðist ætla að lagast þrátt fyrir fyrri efasemdir.

Maður sá á æfingunni að það er virkilegur kraftur, hraði og vilji í okkar mönnum og þeir eiga örugglega góðan möguleika gegn Norður-Kóreu á morgun.
Við höfum svolítið verið að reyna að njósna um þessa andstæðinga en þeir eru fámálir og halda sig undan. Þeir eru greinilega undir miklum aga og heillandi að sjá aðfarirnar á æfingum. Þeir kunna fyrir sér í líkamsrækt, nota hver annan sem lóð og virðast vera í fanta-formi eins og sagt er. En okkar menn eru ekki alveg ónýtir heldur og útlitið er gott fyrir milliríkjadeiluna við Norður-Kóreu á morgun.