Dagur 8 - slökun, gubbupest og betlarar

Þar sem dagurinn var frídagur fengu strákarnir að ráða því hvort þeir vöknuðu í morgunmat eða ekki.  Fararstjórunum til lítillar undrunar mættu fáir þeirra ef einhverjir.  Þjálfarar og fararstjórn mættu í morgunmat og var lítil gleði hjá fararstjóranum því hann þurfti að mæta á fund kl. 10 en hinir voru í fríi. Fundurinn var þó í styttra lagi, einungis um tveir tímar. Aðalatriðin voru að fundurinn staðfesti leikbann yfir Spánverja sem hafði fengið "leikdóm" fyrir að sparka og bætti við leikbanni á landa hans sem hafði fengið "brotvísun úr leik" og sparkað einni hurð af hjörunum á leiðinni út af svellinu.
Um hádegisleytið var aftur og enn athugað með töskuna hans Þorsteins en hún var enn föst í París.  Þá töldum við orðið nokkuð öruggt að hún kæmi ekki og höfðum samband við ÍHÍ og báðum þá að biðja Flugleiðir um að fá töskuna heim til Íslands. 
Einu föstu punktarnir þennan dag var að strákarnir urðu að mæta í hádegismat og á æfingu um miðjann dag.  Annars voru menn bara á flakki í bænum, en ekki er margt hér við að vera. 
Í kringum hótelið okkar og íshokkíhöllina eru tveir littlir guttar alltaf að sniglast. Þeir eru grútskítugir og einhver sagði strákunum að þeir ættu sér bæli í tré í almenningsgarðinum sem er á móti hótelinu. Einhverjir í liðinu vorkenndu guttunum svo mikið að þeir fóru með þá í búðina. Ekki leist öryggisverðinum neitt á að fá þess litlu inn í búðina en strákarnir þrættu við hann þangað til að guttarnir fengu að fara með þeim, þó með því skilyrði að þeir héldu höndunum á höfði sér eins og vopnaðir glæpamenn eru látnir gera í bíómyndum. Þeir fengu þó  slatta af mat og eitthvað af fötum.
Nóttina áður höfðu tveir fengið gubbupest og ekki skánaði það þennan daginn, einn af öðrum féllu strákarnir.  Þetta er óþverrapesti sem kemur af miklum krafti en virðist standa stutt.  Við vonum að heilsan verði orðin sæmileg á morgun og við náum í heilt lið.
Gleðipunkturinn þennan dagin var að við áttuðum okkur á því að við vorum búnir að tryggja okkur áframhaldandi veru í 2.deild.  Ef Ástralir vinna Spánverja á morgun erum við með betra innbirðis markahlutfall en Spánverjar, en ef Spánverjar vinna þá eru Ástralir án stiga.  Sem sé upphaflega markmiðinu um að halda sér í deildinni er náð, en með þetta lið og meiri samæfingu ættum við að vera að berjast um annað sætið í keppninni.

kv
Jón H