Dagur 4 - fyrsti sigurinn.

Þessi dagur byrjaði eins og aðrir með því að fara í morgunmat snemma.  Síðan var tekinn liðsfundur til að ná saman liðinu og ræða málin.  Á meðan voru menn úr fararstjórninni að vinna í því að koma Þorsteini á svellið.  Gunni var búinn með leikbannið sitt og þurfti því gallan sem Þorsteinn hafði að láni daginn áður.  Bæði Ed og Helgi voru með skauta ásamt því að möguleiki var á að kaupa skauta í hverfis-hokkíbúðinni. 
Leikurinn þennan daginn var á móti Áströlum og var gríðarlega mikilvægt að vinna hann.  Þegar vesenið með gallamál Þorsteins stóðu sem hæst steig Simmi fram fyrir skjöldu og sýndi hvernig gott lið vinnur. Hann vissi að Þorsteinn er mjög mikilvægur liðinu og bauð hann því fram gallan sinn að láni þrátt fyrir að vita að með því væri hann að útiloka sjálfan sig frá leiknum.
Allir í fararstjórninni voru sammála því að við gætum þurft að taka þessu tilboði Simma en allir voru líka sammála því að það væri síðasta hálmstráið.  Við ýttum því duglega á Rúmenanana um að redda okkur hlífum og fórum í hokkíbúöina til að skoða skauta.   Þorsteini leyst ekkert á skautana þar en við keyptum handa honum hvítan hjálm, sokkabönd (næstum eins og stelpur nota) og punghlíf svo við þyrftum að treysta á lágamarksútbúnað frá Rúmenunum ásamt því að nota "gömlu, linu, útjöskuðu" skautana hans Eds. 
Innan við klukkutíma fyrir leik fengum við rúmensku hlífarnar og virkuðu þær fínt, en stuttu síðar komumst við að því að stóllinn undir öðrum skautanum hans Eds var mölbrotinn.  Ed, Helgi og Sissi voru sammála um að það væri of hættulegt að senda Þorstein í leik á skautum með brotinn stól og voru því áætlanir b,c,d og eitthvað settar í gang.  Um svipað leiti og leikurinn byrjaði var formaður rúmenska sambandsins spurður hvort hann gæti reddað skautum í stærð 8,5 og Maggi og Jón H voru sendir út í búð að reyna að kaupa einhverja nothæfa skauta í sömu stærð.  Þeir félagar komust fljótt að því að hægt var að fá skauta í stærð 8 og svo 9 en ekki 8,5.  Því var hringt í Sissa til að finna út hvora stærðina Þorsteinn vildi.  Þá kom í ljós að Rúmenarrnir voru búnir að redda skautum í réttri stærð.  Jón og Maggi drifu sig því aftur niður á svell til að sjá leikinn. Þegar þangað var komið kom í ljós að rúmesku skautarnir voru "ljóta helv**** Salming-draslið sem enginn heilvita maður mundi nokkurntíman setja tærnar á sér í" og því spilaði Þorsteinn í skautunum hans Helga sem voru eins og góð svigskíði undir honum.  Til að toppa daginn kvörtuðu leikmenn undan því að vatnið sem þeir fengu væri ódrekkandi. Rúmenarnir vildu meina að þetta væri besta "eðalvatn" sem væri til í heiminum og framleitt rétt fyrir utan bæinn sem við gistum í.  Strákarnir okkar báru þetta saman við íslenskt kranavatn og komust að því að þetta væri ekki boðlegt íslendingum.  Maggi Halti var því sendur út á hækjunni að redda vatni, hann kom rétt skömmu síðar með  hækjuna í hægri hendi  og  35 lítra af vatni í hinni handa strákunum.
Hart var barist í fyrstu lotu leiksins og voru bæði liðin með 8 mínútur í refsingar en ekkert var skorað.  Önnur lota einkendist af baráttu og littlu spili, mikið var um að menn hreinsuðu út úr varnarsvæðinu og töluvert var um ísingar.  Á 37. mínútu skoruðu loksins okkar strákar, það var power play (3 á 5) mark sem kom upp úr frábæru stuttu spili.  Birkir sendi á Gauta sem sendi í fyrstu snertingu á Patrik sem skaut viðstöðulaust og skoraði.  Þvi miður fyrir okkur voru Ástralirnir fljótir að svara fyrir sig og skoruðu mark rétt rúmlega mínútu síðar.  Þriðja lotar fór val af stað, okkar drengir voru geinilega búnir að finna spilið aftur og áttu oft stórglæsilegar sóknir og var þetta eina lotan sem við áttum fleiri skot á mark en ástralirnir (8/9).  Þar munaði miklu um að Birkir mundi allt í einu að hann er með hrikaleg skot.  Hann tók nokkur sem dreifðust allt í kringum markið á meðan hann var að stilla miðið.  Síðan fóru skotin að hitta og var markmaður ástralana í mestu vandræðum með þessa þrumufleyga, tvö skot með nokkurra sekúndna millibili fóru í stöng svo söng í höllinni.  Á fjórðu mínútu báru svo sóknir okkar drengja árangur.  Við fengum power play og Steinar Páll setti pökkinn í netið af stuttu færi eftir stoðsendingu frá Gauta.  Eftir þetta pökkuðu Íslendingarnir í vörn og pirruðu Ástralana mjög með því að sækja lítið og verjast vel.  Á síðustu mínútu leiksins skiptu Ástralirnir markmanninum sínum útaf í skiptum fyrir sóknarmann, það kom í bakið á þeim því Emil náði pekkinum og sendi hann eftir vellinum endilöngum og skoraði sigurmarkið.  Aron Leví stóð í markinu allann tímann og fór á kostum.  Hann fékk á sig 33 skot en einungis eitt fór inn, enda var hann valinn maður leiksins í íslenska liðinu.  Ljótt atvik setti blett á leikinn í lokin, eftir að flautað var til leiksloka keyrði einn Ástralinn á Emil og lamdi hann í andlitið þannig að hann blóðgaðist.  Emil hristi þetta bara af sér en Ástralinn fékk MP dóm sem þýðir að minnsta kosti einn leik í bann.

Það var margt gott í þessum leik; Aron fór á kostum, við brutum lítið af okkur (14 mín), nýttum power playin vel (2 mörk) og stóðum okkur vel í að verjast manni færri.
Gleði fararstjórnarinnar var svo mikil yfir þessum sigri að öllu liðinu var boðið út í pizzu.  Það var breytt brosið á fararstjórninni þegar reikningurinn kom, pizzur ofan í 25 manns og gos með kostaði u.þ.b. 11000 kr.
Seinna um daginn áttust við Ungverjar og Spánverjar, Ungverjarnir eru með langbesta liðið hér og fór leikurinn 12-4.  Spánverjarnir voru nokkuð ánægðir með að tapa ekki stærra og sögðust halda að Ungverjarnir hefðu ekki verið á fullu gasi í þessum leik.  Öllu meira spennandi var leikur  Króata og Rúmena, eftir þrjár lotur var staðan 3-3 og þurfti að spila framlengingu.  Ekkert mark var skorað og því var farið í vítakeppni.  Markmennirnir fóru á kostum og var það ekki fyrr en Rúmenar tóku sitt þriðja vítaskot að sigurmarkið var skorað.
Við fengum símhringingu frá Íslandi um miðjan dag þar sem okkur var tjáð að taskan hans Þorsteins væri fundin í París.  Einhverra hluta vegna gátu þeir hjá Icelandair ekki látið senda hana áfram, við þurftum að fá Rúmenana hér til að hringja í flugvöllinn í Búkarest til að láta áframsenda töskuna.
Kvöldið fór svo að mestu í rólegheit þrátt fyrir að það væri frí daginn eftir.
 
Kv.
Jón H