Dagur 1 - ferðin til Rúmeníu

Þessi dagur byrjaði ótrúlega vel. Allir mættu á réttum tíma í Leifsstöð og enginn gleymdi passanum sínum. Við byrjuðum á að spjalla við starfsstúlku í flugstöðinni til að athuga hvort við ættum ekki að fara í sér röð þar sem við vorum margir, með helling af farangri og ætluðum að innrita farangurinn allir inn í einu. Stúlkan hélt nú ekki, við áttum bara að fara í röð eins og hinir farþegarnir. Þegar við vorum búnir að drösla öllu hokkídótinu í alla hlykkina að innritunarborðinu og starfsmennirnir áttuðu sig á að við vorum að stoppa alla starfsemi í flugstöðinni vorum við látnir færa okkur í sér röð svo við trufluðum ekki hina farþegana. Þegar búið var að innrita fararstjórnina kom í ljós að farangursmerkingarnar voru rangar og varð einn starfsmaðurinn í innrituninni að hlaupa eftir töskunum og breyta um merkingar svo farangurinn færi ekki til Ougadougou eða lengra.
Flugið til Parísar gekk fljótt og vel fyrir sig. Í flugstöðinni í París vafraði hópurinn um í góða stund eins og höfuðlaus her. En að lokum fundum við út hvert við áttum að fara og þeir einu sem týndust voru þrír meðlimir úr fararstjórninni sem ítrekað höfðu brýnt fyrir drengjunum að halda hópinn. Við innritunarborðið til Rúmeníu létum við starfsmann fá alla farangursmiðana til að sannreyna að allur farangurinn hefði komið og verið bókaður áfram til Rúmeníu.
Þegar til Rúmeníu kom, kom í ljós að ekki var mikið á staðfestingu fransmannanna að treysta. Það vantaði 9 töskur og byrjaði þá langt og strangt þref við rúmenska starfsmenn um hvernig ætti að leysa þetta mál. Þeir fundu út eftir góða stund að kannski væri jafnvel vitað hvar fimm töskur gætu verið og kannski jafnvel væri hægt að fá þær sendar morguninn eftir til einhvers smábæjar í Rúmeníu þar sem við gætum jafnvel nálgast þær. Þetta töldum við ekki ásættanlega niðurstöðu og varð úr að við héldum för okkar áfram og Sissi mundi renna aftur á flugvöllinn daginn eftir til að reyna að redda málunum. Þegar við fórum að ræða við bílstjórann og manninn sem tók á móti okkur runnu á okkur tvær grímur. Fimm tíma rútuferðin hafði breyst í 9 tíma vegna þoku og myrkurs. Ekki vorum við par ánægðir með þetta tilboð og tókum því til við að prútta við Rúmenana og höfðum það upp úr krafsinu að ferðin mundi kannski ekki taka nema 5-6 tíma og að lokum vorum við bara fjóra tíma á leiðinni. Við vorum komnir á hótelið um fjögurleytið um nóttina (tvö að íslenskum tíma) og skelltum okkur beint í háttinn.