U20 - DAGBÓK - 7. FÆRSLA

Íslenska liðið fagnar marki í leiknum
Íslenska liðið fagnar marki í leiknum


Sárt tap gegn Serbum 4-3

Eftir erfiðan leik gegn Spáni var komið að því að herja á Serbana.  Miðað við stöðuna og getu liðana var þetta úrslitaleikur um 3. sætið og þar með bronsið.  Fyrir leikinn var vitað að Serbar væru sterkir og við þyrftum að hitta á góðan leik til að sigra þá.  Í fyrra töpuðum við fyrir þeim 7-1 á heimsmeistaramótinu sem þá var haldið í Belgíu.

Við misstum strax Andra Helga út af í 12 mínútna refsidóm (2+10) fyrir baktékk, sem var frekar hart fyrir okkur í byrjun.  Þegar um 5 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta átti Daníel Hrafn gott skot rétt innan við bláu línuna sem markvörður Serba réði ekki við og Ísland komið yfir 1-0, stoðsendingar hér áttu Kári Guðlaugs og Falur.   Þannig hélst staðan þar til 1. leikhluta lauk.

Þegar 2 og hálf mínúta var liðin af öðrum leikhluta var dæmur hooking dómur á íslenska liðið og nýttu Serbar sér liðsmunin og jöfnuðu 1-1.  Um tíu mínútum seinna komast Serbarnir svo aftur yfir 2-1.  Íslenska liðið virtist ekki hafa nein svör og enn fáum við á okkur liðsdóm, manni færri og Serbarnir nýta sér það á 38. mínútu.  Aðeins um hálfri mínútu síðar tekst þó Birni Róbert að minnka muninn í 3-2, eftir stoðsendingar frá Daníel Steinþóri og Aroni og þar við sat til lokka annars leikhluta og við komnir inn í leikinn aftur.

Strákarnir gerðu ná allt hvað þeir gátu til að jafna metin, en það var sjáanlegt á liðinu að erfiður leikur gegn Spáni kvöldinu áður sat aðeins í þeim.  Þeir neituðu þó að gefast upp og dæmdur liðsdómur á Serba, þegar um 7 mínútur voru eftir af leiknum og jafnaði Björn Róbert metin í 3-3, eftir stoðsendingar frá Andra Helga og Ingþóri Árna.  Serbarnir náðu að komast svo yfir aftur aðeins tveimur mínútum seinna og tókst þeim að halda stöðunni þannig þrátt fyrir mikinn sóknarþunga okkar stráka síðustu mínúturnar.  Niðurstaðan eins marks tap og bronsið úr sögunni.  Maður leiksins úr okkar liði var valinn Falur Guðna, en hann sýndi mikla baráttu og spilaði vel í þessum leik.

Enn og aftur töpum við, frekar naumt fyrir liðum sem eru ofar en við á styrkleikalistanum, en það verður líka að segjast eins og er að ekki hefur margt fallið fyrir okkur á þessu móti.  Engu að síður hafa strákarnir staðið sig frábærlega og hafa menn hér haft á orði við okkur að gaman sé að horfa á íslenska liðið spila.  Þá hafa nokkir heimamenn og starfsmenn við mótið sagt að við séum líka vingjarnlegasta liðið og getum við verið stolt af þessu liði sem okkar fulltrúum Íslands hér.

Til að ná árangri og verðalaunasæti á svona móti þarf ýmislegt til og það kemur ekki af sjálfu sér.  Þegar geta liðana er skoðuð, þá höfum við leikmönnum á að skipa sem eru alveg jafngóðir og bestu menn hinna liðana.  Það sem að mati undirritaðs skorti hér helst á  hjá okkur í að ná í verðlaunasæti er að við þyrftum að hafa örlítið meiri breidd í liðinu og meiri úthald, því heilt yfir eru hin liðin í betra formi en við.  Því það reynir virklega á úthaldið að spila svona marga erfiða leiki á um vikutíma þegar líða tekur á mótið.

Það þýðir aftur á móti ekkert að vera að hengja haus, framundan er leikur við Ástrali sem við ætlum okkur að vinna og ná þannig 4. sætinu.  Sá leikur er á föstudaginn og hefst kl. 15:30 að íslenskum tíma.  Fimmtudagurinn er hvíldardagur og verða strákarnir eflaust hvíldinni fegnir.  Kl. 18 að staðartíma munu þeir allir koma saman í fundarsal í kjallara hótelsins og horfa á landsleik Íslands og Spánar á EM í handbolta.  Áfram Ísland mun því hljóma hér í Jaca!

http://www.iihf.com/competition/363/statistics.html - myndir úr leiknum

Með kveðju frá Jaca

Sigurður Kr. Björnsson