U20 - Dagbók - 1. færsla

Fararstjórn U20 ára liðsins mun gera sitt allra besta til að flytja fréttir afþví sem gerist í ferðinni. Hér kemur fyrsta færsla.

Strembið ferðalag til Spánar að baki

Íslenska U20 landsliðið í íshokkí er mætt til leiks á heimsmeistaramótinu í Jaca á Spáni.  Hópurinn lagði af stað frá Íslandi og samkvæmt áætlun átti að fara í loftið til London kl. 9 frá Keflavík.  Fyrst varð um 20 mínútna töf, þá bætist við önnur 30 mínútna töf þar sem bíða þurfti eftir farþegum sem voru að koma úr tengiflugi og loks varð stutt töf, vegna klúðurs við aftengingu á landgangi.  Að vísu vantaði 3 leikmenn í hópinn, en Björn Róbert kom frá Bandaríkjunum, Steindór frá Candada og loks Daníel Hrafn sem brá undir sér betri fætinum og kom frá andfættlingum í Ástralíu.  Björn og Steindór hittu hópinn í Barcelona, en Daníel er enn á leiðinni til Jaca þegar þetta er skrifað.

Flugið til London gekk vel og þurfti hópurinn að tékka allann farangur út í London og aftur inn í framhaldsflug til Barcelona með British Airways.  Þá gerðist það sem oft vill nú verða í landsliðsferðum, tösku vantaði.  Að þessu sinni var það taska Jóns Eyþórs fararstjóra.  Þurftum við aða bíða lengi og fylla út skýrslur og „claima“ töskuna.  Þá tók við smá ferðalag frá Terminal 1 á Heathrow til Terminal 5, 4 mínútna lestarferð og mikið labb milli hæða.    Innritunin hjá BA tók vægast sagt langan tíma, þar sem einungis 1 taska er leyfð ásamt handfarangri.  Menn brugðu á það ráða að raða á milli taska og þar sem eftir varð, lenti í yfirvigt.  Allt þetta tók sinn tíma og óðum styttist í brottför til Spánar.  Að lokum var farið í gegnum öryggisleitina og gekk hún ekki alveg snuðrulaust fyrir sig, nokkrir „teknir á teppið“ hjá öryggisvörðum, en allt fór þó vel, nema hvað tíminn leið hratt.  Svo fór að síðustu tveir úr hópnum hlupu inn í vélina aðeins tæpum 5 mínútum fyrir brottför og uppskáru þeir mikið klapp er þeir komu inn í vélina.

Flugið til Barcelona tók eina klukkustund og 45 mínútur.  Þar beið okkar langferðabifreið sem ferjaði okkur til Jaca og tók aksturinn um 4 og hálfan tíma.  Tekið var stutt stopp  í La Pandarella eftir klukkustundakstur þar virtist vera eina bensínstöðvar sjoppa og veitingasala á leiðinni.  Þá upphófust miklir tungumálaörðuleikar því þeir innfæddu töluðu aðeins spænsku, en girnileg langbrauð sáust í hillunum.  Tókst undirrituðum að bregða fyrir sér frönskuheitinu á skinku og því þýska á osti og þar með var málið leyst, slatti af slíkum samlokum kom með okkur.  Tekið var gott nesti af drykkjum og eitthvað að maula og síðustu rúmir 3 tímarnir eknir.  Ekið var strax í skautahöllina sem er öll hin glæsilegasta og búningsherbergi liðsins bæði stórt og gott.  Það voru því þreyttir strákar sem lögðust til svefns, eftir strembið ferðalag til Spánar.  Æfing er áætluð í fyrrmálið kl. 10, en fyrsti leikur liðins er á laugardaginn kl. 12 að íslenskum tíma gegn Suður Kóreu.

Kveðjur frá Spáni

Sigurður Kr. Björnsson