U20 - 5. sólahringur. Ítalía

Dagurinn í gær var með rólegra móti allavega þar til kom að leiknum við Ítalina. Þjálfarinn fyrirskipaði góða hvíld og menn  tóku því rólega lengi vel. Um miðjan dag var boðað til fundar með leikmönnum og farið yfir leikplan kvöldsins og klukkan fjögur tóku síðan allir hraustlega til matar síns. Þess má geta að hluta af fararstjórn varð það á að mæta fáeinum mínútum of seint á fundinn þar sem hún gleymdi sér við að horfa á vítakeppni í leik Belga og Rúmena. Kættust leikmenn því nokkuð þegar Jukka þjálfari fyrirskipaði þeim 15 armbeygjur í refsingu. Jafnt skal yfir alla ganga. Leikurinn um kvöldið var síðan eins og við áttum von á, þ.e. erfiður. Ítalirnir eru með geypisterkt lið, þeir eru líkamlega sterkir, góðir skautamenn og samæfing góð. Lengi vel hélt þó íslenska liðið í þá og eftir tvær lotur af þremur var staðan 4 – 0. Í seinasta leikhlutanum fór þreytan að segja til sín hjá íslenska liðinu og í henni bættu Ítalir við sjö mörkum gegn einu marki okkar manna. Ómar markmaður hafði nóg fyrir stafni í markinu og þrátt fyrir mörkin ellefu var hann valinn maður leiksins úr íslenska liðinu. Kvöldmatur var síðan snæddur eftir leik en þá var klukkan að ganga ellefu að kvöld. Það var síðan þreyttur mannskapur sem labbaði uppá hótel og beint í háttinn því að í dag eigum við fyrsta leik gegn Japönum. Japanarnir eru nokkuð svekktir með að hafa tapað fyrir Ítölunum því það gerir vonir þeirra um að komast upp nánast að engu. Þeir hafa æft gífurlega mikið og mættu hér vel tilbúnir í slaginn. Þegar maður horfir á hin liðin þá sér maður vel hvar helsti veikleiki íslenska liðsins liggur, þ.e. samæfingin er ekki mjög mikil. Liðið fékk fjórar æfingar fyrir keppni en mjög erfitt er að fá ístíma heima til æfinga. Ekki bætir úr skák að þeir ístímar sem fást eru stundum teknir af félögunum sem veldur þá skiljanlega óánægju þeim meginn enda þau í sífelldri baráttu um fleiri tíma. Stefnan er samt alltaf að gera betur og ég held að segja megi fullum fetum að þátttaka okkar í þessum mótum skili sér vel. Mótið hjá okkur heima er lítið og þarna fá leikmenn kjörið tækifæri til að keppa í erfiðum keppnum við aðra mótherja en vanalega. Meira síðar.