U20 - 4. sólahringur. Ítalía

Eftir hádegismatinn í gær slöppuðu menn af í smá stund áður en haldið var á æfingu. Þar sem um frídag var að ræða var æfingin óvenjulega löng en þar var m.a. æfðar uppstillingar þegar liðið væri manni færri og fleiri. Þegar henni var lokið var frí fram liðsfundi. Einhverjir liðsmenn höfðu keypt sér rassasnjóþotur fyrr um daginn og fóru í að finna sér brekku til að renna  sér í.  Á liðsfundinum var ákveðið að taka rútu og kíkja í smá bíltúr á seinni frídeginum sem er á föstudaginn kemur. Einnig nýtti liðslæknirinn dr. Gauti Arnþórsson, nýkjörinn heiðursfélagi ÍHÍ, tækifærið til að brýna enn betur fyrir liðsmönnum hvað líkamanum væri fyrir bestu í komandi átökum. Greinilegt var að það gerði sitt því aldrei fyrr í ferðinni hefur salatbarinnn horfið á diska liðsmanna á jafn skömmum tíma. Eftir kvöldmat var síðan frjáls tími sem nýttur var til busunar á nýliðum liðsins, enginn slasaðist og ekkert brotnaði þannig að gera má ráð fyrir að busunin hafi verið hin rólegasta. Í dag miðvikudag er svo leikið gegn heimamönnum Ítölum og eins og oftast á heimaliðið alltaf síðasta leik dagsins þannig að leikur okkar verður klukkan 20.00 að staðartíma. Æfing íslenska liðsins er nú u.þ.b. að hefjast, þ.e. hún byrjar klukkan 11 og stendur í 30 mín. Ítalska liðið er geypilega vel spilandi og æft og því verður við ramman reip að draga fyrir okkar menn. Ekki kæmi á óvart þó Jukka þjálfari léti þá spila mjög aftarlega og beita svo skyndisóknum á fáum mönnum þegar við á. Ítalska liðið er það lið hérna  í keppninni sem kom niður úr 1. deild siðast og stefnan hjá þeim er að sjálfsögðu að fara beint upp aftur. Rétt í þessu var að koma í ljós að blaðið á skautanum hjá Steinari Grettis er brotið og nú er verið að vinna í því að redda nýju blaði. Eins og vanalega má fylgjast með leikjunum á heimasíðu IIHF. Meira síðar.
 
HH