7. dagur í Narva

 
Frídagur, það er að segja enginn leikur hjá strákunum í dag.  Drengirnir vaktir kl. 8:45 og morgunmatur kl. 9:00.  Eftir að menn luku honum, var tekinn 10 mínútna göngutúr og Narva kastali heimsóttur.  Sá hinn sami og ég minntist á þegar opinbera móttakan var fyrir fararstjóra, starfsmenn ásamt borgarstjóranum hér í Narva.
Tekið var á móti okkur í kastalanum og fengu við mjög góða leiðsögn um kastalann og farið upp í turninn sem telur einar átta hæðir.  Kastalinn hefur verið endurbyggður, en hann fór mjög illa í seinni heimsstyrjöldinni.  Hann er nokkuð rammgert virki og eru útveggir hans um 4 metra breiðir og hann allur hannaður til að verjast áhlaupum, og alls kyns flóttaleiðir eru innan kastalans. Á efstu hæðinni er gott útsýni til borgarinnar og yfir til Rússlands sem er um í 150 metra fjarlægð handan árinnar. Mesta athygli strákana var kamarinn...sem var í raun bara sylla við útvegg og svo hola niður.  Einhver hafði það á orði að helv...hafi verið kalt að fara þarna á veturna.

Eftir skoðunarferðina, var þrammað aftur upp á hótel og þaðan var farið niður í höll á ísæfingu.  Þar var einnig tekin hin opinbera liðsmynd af liðinu af ljósmyndara og pöntuðu sér þó nokkuð margir strákar sér eintak.  Auk þess tók undirritaður mynd af hverjum og einum í landsliðsbúningnum í lok æfingarinnar.  Eftir æfingu var haldið aftur upp á hótel og borðaður síðbúinn hádegismatur kl. 15.  Menn áttu svo að hvílast til hálf fimm, en þá höfðu menn frjálsan tíma til kl. 19 þegar kvöldverður var reiddur framm.  Flestir þrömmuðu niður að verslunarmiðstöðinni, 15 mín labb, en einhverjir tóku leigubíl, enn leigubíll kostar hér innan Narva aðeins 220 kr ísl.  Verðlag hér er tiltölulega ódýrt á okkar mælikvarða.  Líter af bjór kostar 250 kr., en gos t.d. eins og Coke og Pepsi er lítið ódýrara en heima.  Kjúklingabringur kostar hér kílóið einhverjar 800 krónur, Nezirill nefspray 400 krónur íslenskar og svona gæti maður lengi talið, flest allt um helmingi ódýrara.  Nema nýju spar-ljósaperurnar sá ég, jafn dýrar og heima. 

Eftir kvöldmat fengu menn hvíld sem var notuð sem undirbúningur fyrir kynningu Verkefnis-ins og jafnvel eitthvað skemmtiatriði tengd því.
Segei boðaði síðan fundinn.  Fyrst var farið yfir verkefnið og hóparnir kynntu niðurstöður sínar.  Gaman var að fylgjast með strákunum og allir skemmtu sér konunglega, ekki síst Sergei sjálfur, en segja má að hópurinn með TommaT, Hjalta, Kára og Danna hafi stolið senunni, þegar þeir settu á svið þegar Sergei refsar mönnum að fara ekki á réttum tíma að sofa.  Þar brá TommiT sér í hlutverk Sergei, en þar notaði hann sér sömu tækni og Spaugstofan notar við þegar Ragnar nokkur Reykás, er látinn ganga eða hreyfa sig, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. 

 
Aðrir hópar voru með dansatriði og smá leikþætti og stóðu sig allir frábærlega vel.  Skemmtilegt verkefni sem síðast en ekki síst...þjappar hópnum betur saman og gerir þessa stráka að enn betri félögum en þeir eru nú þegar orðnir.
Sergei fór síðan aftur yfir þá hluti sem hann hafði sett mönnum fyrir með og markmiðið með þessu verkefni er að leikmenn skilgreini og meti þá hluti sem þeir telja að liðið eigi að standa fyrir.  Hann var með dæmi hvernig Detroit Red Wings skilgreindu þetta hjá þér, hvernig U-18 landslið okkar í fyrra skilgreindi liðið og loks svo niðurstöðu strákana okkar í dag.
Síðan var tekið fyrir á myndbandi hvernig við spilum penalty killing eða boxið okkar.  Loks fengu menn að sjá þau mörk sem við höfum skorað á mótinu.  Allir leikirnir eru teknir upp og fáum við afrit af okkar leikjum.  Svo í endann fengu strákarnir að fá að sjá samantekt frá U-18 mótinu í fyrra í Tyrklandi, þar sem okkar strákar fóru á kostum. Eftir þetta eða um kl. 22:30 héldu menn til herbergja og ró að vera komin á kl. 23.  Mikilvægir leikir framundan á morgun enn þá ræðst hvort við náum markmiði okkar að halda okkur hér uppi í þessari deild eða ekki.  Við eigum leik við Rúmena sem við getum tekið ef ALLIR eiga toppleik.  Eftir leikinn sem vonandi fer vel...tekur við langt og strangt ferðalag aftur heim til Íslands.  3ja tíma rútuferð til Tallinn og þaðan flogið til Köben og svo heim.  Vonandi næ ég að senda inn síðasta pistillinn okkar áður en við leggjum af stað.
 
Bestu kveðjur til allra frá Narva
ÁFRAM  ÍSLAND
 
Sigurður Kr. Björnsson