6. dagur í Narva

6. dagur Narva
 
Miðvikudagur 17. mars runninn og menn vaktir kl. 8:00, en ávallt eru tveir skipaðir til að vekja strákana af Sergei og hinir sömu er ábyrgir fyrir því að menn vakni og mæti í morgunmatinn.  Eftir hin hefðbundna morgunmat, fór aðeins hluti liðsins á ísinn á morgunæfingunni ásamt Danna markmanni.  Snorri markmaður kenndi sér meins í hné og hvíldi.  Sergei notaði æfinguna til að undir búa Danna undir stórskotahríð Ítala um kvöldið.
Talandi um Ítalina.  Þeir eiga í raun ekkert erindi í þessa keppni hér.  Til þess eru þeir alltof góðir.  Í fyrra féllu þeir um deild, þrátt fyrir að keppnin í 1. deild hafi verið haldin á Ítalíu.  Þeir töpuðu aðeins einum leik gegn Danmörku, gerðu alla hina jafntefli og töpuðu öllum annað hvort á golden goal eða í vítaskotum.  Allur búnaður í kringum liðið er alvöru.  Skerpingagræjur af bestu gerð eru með í för hjá þeim og hefur Skerpingar-Jón þeirra Ítala verið mjög liðlegur að skerpa fyrir okkur.  Þeir eru með heilan sendiferðabíl sér innréttaðan með öllum þeim búnaði sem alvöru íshokkílið þarf á að halda.  Það tók held ég Skerparann eina 29 klukkutíma og einhverja tæpa 3.000 kílómetra að aka hingað upp eftir í gegnum þvera Evrópu og til Narva.  Ef maður heimfærir þetta á okkur Íslendingana er þetta svipað og við hefðum slíkan bíl og tækjum far með Norrænu ferjunni og ækjum svo sem leið liggur.  Ég viss um að Hallmundur færi létt með aka slíkum bíl.  Ég veit alla vega um eina bíltegund sem færi mjög vel með hann í slíkri ferð.  Nú er bara um að gera að byrja að safna, ég gæti hugsanlega líka útvegað svona bíl á góðu verði ;)

Enn svo að leik dagsins.  Tja eflaust vita allir um hvernig fór um sjóferð þá.  Ítalarnir rétt mörðu okkur 16-0.  Eins og ég er búinn að margtyggja ofan í ykkur, þetta lið þeirra Ítala á ekkert erindi hingað.  Með sigrinum á okkur eru þeir búnir að gulltryggja sér sigurinn hér þó að ein umferð sé eftir.  Danni markvörður fékk á sig 99 skot og var með 84% markvörslu sem er ekki slæmt.  Hann sýndi á köflum frábæra markvörslu og kom í veg fyrir enn stærra tap liðsins.  Það kom því ekki á óvart að hann skuli hafa verið valinn maður leiksins í liði okkar Íslendinga.  Í gærkvöldi léku svo Eistar við Króata og skipti sá leikur heilmiklu máli fyrir okkur.  Enda fjölmenntu menn á leikinn og sáu hann live  Hann var æsispennandi endaði 2-2, fór í framlengingu og síðan í vító þar sem Króatar höfðu betur.  Eistar léku án síns besta manns Robert Rooba sem er farinn aftur til Finnlands til að leika úrslitum U18 þar í landi. 

Reglan hér er sú að ef lið verða jöfn að stigum eins og staðan var fyrir þennan leik að hugsanlega yrðum við, Eistar og Serbar öll með 3 stig í lok móts, þá gildir markahlutfall liðana og þar erum við með verstu stöðuna.  Hins vegar ef aðeins 2 lið eru jöfn gildir innbyrðis viðureign liðanna.  Eistar náðu í eitt stig, þannig að fyrir lokaumferðina erum við og Serbar með 3 stig.  Ef Serbar tapa gegn Króötum, falla þeir úr deildinni og við þá uppi, sama hvernig okkar leikur fer gegn Rúmenum.  Ef Serbar vinna eða ná sér í stig, verðum við að gera slíkt hið sama gegn Rúmenum ef við eigum ekki að falla.  Vinnum við Rúmena erum við öruggir uppi.   Ég átti spjall við kandadískan þjálfara Króatana og fullvissaði mig um að þeir ætla sér að leggja allt í sölurnar til að ná öðru sætinu. 

Nú eftir leik var farið aftur upp á hótel.  Frídagur framundan og æfing, en á æfingunni verður tekin liðsmynd af liðinu af opinberum hirðljósmyndara keppninnar sem birtast á þessari slóð á vef Alþjóðaíshokkísambandins.

Hér eru myndir úr leiknum gegn Ítölum og eins við væri að búast, er Danni markmaður aðalmynd efnið í þeim leik.  Talandi um Danna, ég ranghermdi í fyrsta pistli að þegar ég talaði um ákveðið skítamark þegar pökkurinn sveif yfir markmann okkar og í netið var það yfir Snorra en ekki Danna eins og ég skrifaði.  Svo þá er búið að færa þetta rétt til bókar. 

 
Allir hressir og kátir og biðja að heilsa héðan frá Narva

ÁFRAM  ÍSLAND

Sigurður Kr. Björnsson