5. dagur í Narva

5. dagur Narva
 
Þriðjudagsmorgunn 16. mars runninn upp og menn vaktir kl. 8:30.  Morgunmatur og framundan morgunæfing á ís í höllinni.  Korter í ellefu voru okkar menn mættir á ísinn og létt æfing tekinn, en um kvöldið er leikurinn við gestgjafana sjálfa Eistana.  Gengi þeirra á mótinu til þessa hefur komið á óvart, því reiknað var með þeim mun sterkari.  Að vísu voru höggvin skörð í lið þeirra strax í fyrsta leik er þeir misstu 3 menn í meiðsli.  Auk þess sem þeirra sterkasti leikmaður Róbert Rooba, hafði ekki leikið með þeim enn þá þar sem hann hefur verið að leika í play off í Finnlandi U-18 með Esbo liðinu og kominn í úrslitaleikinn með þeim þar.
Eftir æfinguna var haldið aftur heim á hótel og borðaður matur um tvöleytið.  Maturinn hér er ekki vondur, en heldur ekki góður svo sem, enn af skornum skammti, nóg af meðlæti eins og hrísgrjónum og MIKIÐ af kartöflum, en mætti vera meira af hinum eiginlega mat eins og kjötmetinu sjálfu.  Í forrétt er boðið uppá spagettí og tómassósu og ég held að þið foreldrar góðir ættu að fara varalega í það næstu daga að bjóða ykkar strákum spagettí.  Einnig verður ekki hjá því komist að minnast á morgunmatinn.  Jú það eru litlar pylsur og egg, en eggjarétturinn, er að ég held einhvers konar eggjalíki sem bakað er í ofni og á að líkjast einhverju sem við köllum eggjaböku.  Tilltölulega bragðlítið,  en orðið ágætt með góðum skammti af pipar og salti og mikið af tómassósu.
Þetta minnir mann óneitanlega á þá fyrri tíma sem fólk hefur hér upplifað og ekki ósvipað því sem undirritaður upplifði snemma á áttunda áratugnum þegar Austur Þýskland og Austur-Berlín voru heimsótt.  Húsbyggingar hér eru flest allar í þessum gráa ferkantaða arkitektúr kommúnismans sem hér réði öllu og flest öll hús hér frekar einsleit á að líta, eins og þessi myndin hér að ofan ber með sér.

Þegar leitað er fróðleiks á netinu um Narva kemur upp sláandi staðreynd, en hún er sú að það er útbreiðsla alnæmisveirunnar eða HIV í borginni.  Á árunum 2001-2008 voru skráð 1600 tilfelli og árlega eru núna eru 150-200 tilfelli skráð. 
Leikurinn gegn gestgjöfunum hófst kl. 20 og það sem við óttuðumst mest var staðreynd.  Robert Rooba floginn hingað frá Finnlandi og menn komnir til baka úr meiðslum ma. annars leikmaður sem leikur með Jokerit, einu sterkasta félagsliði í Finnlandi.  Eistarnir hófu leikinn með látum og skoruðu strax á 3. mínútu. Jói Leifs jafnaði í break-away á þeirri fimmtu.  Eistar komast aftur yfir á þeirri 7., en við komum aftur til baka þegar Björn Róbert jafnaði á 8. mínútu í powerplay eftir stoðsendingar frá TommaT og Ingó.  Eistar náðu að skora tvö mörk með mínútu millibili á þeirri 16. og 17. og þannig var staðan eftir 1. leikhluta 4-2.  Eistar mun aðgangsharðari en við nýttum okkar færi vel og leikurinn í raun opinn.  Smá von kviknaði svo hjá okkur þegar TommiT minnkaði muninn í 4-3 á 23. mínútu, en Eistar skoruðu þá 3 mörk á 15 mínútna kafla og gerði í raun út um leikinn.  Í 3. leikhluta skipti Sergei Daníel inn fyrir Snorra og þrátt fyrir frábæran leik hjá Danna tókst Eistum að skora 3 mörk og þar var títtnefndur Rooba með 2 mörk.  Leiknum lauk með sanngjörnum sigri Eista 10-3.  Maður leikins hjá íslenska liðinu var útnefndur Snorri markamaður, en í heildina voru strákarnir ekki að sýna sinn besta leik, þrátt fyrir góð tilþrif hjá sumum.  Framundan er svo á morgun leikur við Ítali sem verður vægast sagt erfiður og menn þurfa að huga að markatölu, því sú staða getur komið upp að 2 lið verði jöfn að stigum í lokin og þá ræður markamunur frekar en innbyrðis viðureign, en við eigum eftir að kynna okkur það betur.  Nú stöndum við bara í Ítölunm, nóg höfum við svo sem étið að spagettí til að vera jafnokar þeirra á því sviði.  Nú er bara að láta þá finna aðeins fyrir íslensku hörkunni. 
 
Bestu kveðjur til allra frá Narva ÁFRAM ÍSLAND
Sigurður Kr. Björnsson