4. dagur Narva.

4. dagur Narva
 
Mánudagurinn 15. mars runninn upp.  Enginn leikur hjá íslenska liðinu í dag, en engu að síður æfing á ís.  Okkur var úthlutað æfingatíma kl. 11:45, þannig að menn gátu sofið aðeins lengur þennan morguninn og hvílt sig eftir frækilegan sigurleik gegn Serbum kvöldinu áður.  Tekinn var góð æfing og var góð stemming í hópnum og góður hraði á æfingunni.  Á meðan æfingunni stóð, fóru þeir Óli Sæm fararstjóri, Einar equippment managar og undirritaður í hefðbundna móttöku Alþjóðahokkísambandsins og borgarstjóra Narva.  Þar að auk voru mættir forsvarsmenn liðana sem keppa hér, starfslið og dómarar.  Eftir hæfilega stutt ræðuhöld borgarstjórans og mótsstjórans var boðið upp á léttar veitingar og menn tóku tal saman.  Móttaka þessi var haldin í kastala sem reistur var af Dönum, sem ríktu hér á seinni hluta 13. aldar og er hann staðsettur á vestari bakka Narva árinninar sem skilur að Eistland og Rússland.  Við hliðina á kastalanum er svo landamærastöðin sem allir þurfa að bíða svo lengi eftir, til að geta farið yfir til Mother Russia.
Rússar hernámu Narva 1558, þar til Svíar hernámu borgina 1581, Rússar endurheimtu borgina í stríðinu mikla sem geysaði, þegar Pétur mikli sat sem Rússakeisari og Karl XII ríkti í Svíaveldi á árunum 1700-1721.
Í seinni heimstyrjöldinni var borginn nánst jöfnuð við jörðu en miklir bardagar voru háðir um borgina og í mars 1944 jafnaði lofther Rauða hersins hina sögufrægu miðborg borgarinnar í loftárás. 
Landslið okkar hefur smá tengsl inn í stríðsbaráttuna um Narva i seinni heimstyrjöldinni.  Afi Arilds Sigfússonar, Peter Henk, sem var Þjóðverji barðist hér í seinni heimstyrjöldinni með Þjóðverjum.  Það má eiginlega segja honum Peter (og Arild lika!) til happs að hann varð fyrir því vera hæfður í hálsinn með skoti af hermanni Rússa,  við það særðist hann og náði að yfirgefa vígstöðvarnar.  Enn hér austar um ca. 140 km,  kom að því að þýska hervélin stöðvaðist við Leníngrad (Sanki Pétursborg í dag).  Mikil mótspyrna Rauða hersins og einhver kaldasti vetur Evrópusögunnar, gerðu það að verkum að Þjóðverja komust ekki lengra.  Földi þýskra hermanna var felldur hér á slóðum, hnepptur í fangabúðir eða hreinlega fraus í hel.  Það er því öllu skemmtilegri og mannlegri barátta sem barnabarn Peters Henks á í við aðrar þjóðir, hér á slóðum,  rúmri hálfri öld síðar.
Nú aftur í nútímann.  Eftir æfingu var haldið heim á hótel, tekinn hádegismatur og síðan áttu menn hvíld til kl. 16:30.  Áður fyrirhöguð bowling ferð var slegin af og þess í stað þrammað með leiðsögukonu okkar (sem er á aldur við eldri strákana okkar og spurning hvaða foreldri þarf að borga fyrir hana farið heim til Íslands), í þeirra Kringlu Narva-búa.  Strákunum til óblandinnar ánægju var þar fyrir utan Macdonalds staður sem var tekinn með áhlaupi.
Nú eftir klukkutíma veru í Kringlunni þar sem nokkrum tókst meira að segja að koma sér í ljósatíma, var þrammað aftur upp á hótel.  Kvöldmatur beið okkar kl. 19.  Eftir kvöldmat áttu strákarnir aftur smá frítíma sem þó var notaður í að fullklára Verkefnið, en Sergei hafði kvöldinu áður gefið þeim smá verkefni og skipt liðinu í hópa.  Síðan kynntu hóparnir sínar niðurstöður sem voru ansi fróðlegar og umfram allt skemmtilegar, en þetta snerist meira og minna um hvað þarf til að geta spila gott íshokkí og liðsmenn verið partur af góðri liðsheild.
Strákarnir hafa nú fengið nýtt verkefni fyrir næsta frídag sem verður á fimmtudaginn, en þá eiga hóparnir að troða  upp og mega í raun ráða hvað þeir munu gera og verður fróðlegt að sjá útkomuna.
Á morgun er framundan leikur á móti gestgjöfunum Eistum, sem hafa tapað báðum leikjum til þessa.  Leikurinn verður kl. 20 að staðartíma (18 ísl) og reikna má með um 7-800 áhorfendum líkt og til þessa á heimaleikjum Eistana.  Ef okkar strákar mæta með sömu einbeitingu, samheldni og baráttu og á móti Serbum er allt mögulegt í þessum leik.    Allir eru hressir og klárir, Ólafur Hrafn að hafa betur í baráttunni gegn flensuveirunni.  Nokkrir kvarta undan hinu og þessu, en okkar frábæri doktor Gauti Arnþórsson hefur séð til þess hingað til að þeir sem eitthvað eru slappir fyrir, eru í lagi þegar að leik kemur.  Ekki nóg að Gauti læknir sé hokinn af reynslu sem praktíserandi læknir, héraðslæknir og ég veit ekki hvað, þá  hann hefur farið einar 7 landsliðsferðir í íshokkí fyrir Íslands hönd,  og síðast en ekki síst bera strákarnir óblendna virðingu fyrir þessum einstaka manni, sem hugsar um alla leikmenn líkt og þeir væru hans eigin synir. 
Enn gengur treglega að koma myndum til skila, internet sambandið hér hefur verið mjög stöpult og mönnum hent í sífellu út af netinu.  Við heyrðum það áðan að nú sé búið að taka netið af bæjarbúum til þess að hótelin tvö sem hýsa leikmenn mótsins geti annað þeirri netumferð sem þar þarf að fara um.  Enn myndirnar fara ekki frá okkur, sá sem þetta skrifar hefur tekið og mun taka fjöldann allan af myndum og mun láta þá sem vilja hafa disk með myndunum þegar heim kemur, en vonandi náum við þó að senda eitthvað um leið og ef netgáttin skánar. 
 
Kveðjur til allra héðan frá Narva og ÁFRAM ÍSLAND
 
Sigurður Kr. Björnsson