2. dagur í NARVA

Leikdagur runninn upp, dagurinn tekninn snemma því fyrst átti að taka létta morgunæfingu áður en leikurinn sjálfur færi fram kl. 13. Sergei setti strákana í hálftíma á ísinn til að skauta úr sér ferðaþreytuna og kynnast höllinni Jäähall eða Íshöllinni hér í Narva.

Höllinn tekur um 1.000 manns í sæti og gefa strákanir okkar ísnum góða einkunn. Höllin irðist vera frekar nýleg, alla vega miðað við aðrar byggingar hér, en hér minnir margt á fyrrum austantjaldstíma, nema bílarnir virðast vera allra tegunda núna og nýjustu gerða í stað Lödu og Trabant bifreiða sem einkenndu bifreiðamenningu þessarar þjóðar hér áður fyrr.

Eftir stutta æfingu var haldið aftur heim á hótel og tekinn hinn eiginlegi morgunmatur með eggjum og pylsum og brauði. Allir heilir og klárir í átökin, nema Ólafur Hrafn sem hætti á æfingunni, en flenuseinkenni hafa verið að hrjá hann undanfarna daga. Kl. 11 var komið að brottför frá hótelinu og það var flottur hópur íshokkístráka í jakkafötum og bindi sem söfnuðust saman í rútunni. Eina liðið hér með dresscode, strax búnir að vinna þá keppni! Ekki tekur það okkur nema um 5 mínútur að aka leið sem liggur að höllinni.

Kl. 13 var svo stundinn runninn sem allir höfðu beðið eftir fyrsti leikurinn okkar. Króatar byrjuðu betur, þó nokkuð jafnræði hefði verið með liðunum í fyrstu og þeir komust í 1-0 eftir 10 mínútna leik. En okkar menn náðu að jafna með góðu marki Ólafs Hrafns Björnssonar aðeins rúmri mínútu síðar. Við þetta jafnaðist leikurinn og við fengum nokkur tækifæri til að skora sem náðist ekki að nýta. Það var svo á 17. mínútu að Króatar komust í 2-1 og þannig var staðan eftir 1. leikhluta og menn bara nokkuð sáttir við leik okkar manna. En því miður varð svo 2. leikhluti frekar dapur af okkar hálfu og gengu Króatar á lagið og settu á okkur 6 mörk. Ekkert gekk hjá okkar mönnum og útlitið ekki bjart, við áttum þó 11 skot á þeirra mark í 2. leikhluta og þeir 17 á okkar mark, en markaskorið segir allt sem segja þarf.

En strákarnar þjöppðu sér saman og í 3. leikhluta var allt annað að sjá til liðsins. Hraðinn keyrður upp, mun meiri barátta og samheldni í liðinu. Króatar settu á okkur mark á 54. mínútu sem var eins og strákarnir sögðu hálfgert skítamark, en pökkurinn hafði viðkomu í skauta Hjalta varnarmanns og snerist yfir Daníel, sem hafði skipt við Snorra í 2. leikhluta, og einhvern veginn lak yfir hann. Þrátt fyrir þetta héldu okkar menn áfram að berjast og sýna góðan leik sem skilaði okkur marki á 57. mínútu, en þar var Tómas Tjörvi Ómarsson að verki eftir stoðsendingu frá Ingólfi Elíassyni.

Nú leiknum lauk þannig með sigri Króata sem skoruðu 9 mörk gegn tveimur okkar manna. Ef horft er framhjá 2. leiklhluta þá vinnst leikurinn með einu marki. Og í raun svekkjandi að missa leikinn svona niður, en við skulum ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að við erum með mjög ungt lið, miðað við hin liðin, mikil endurnýjun hefur verið í U-18 liðinu okkar frá því í fyrra og 9 nýliðar.

Kanadískur þjálfari Króata hreifst mjög af íslenska liðinu, sagði suma leikmenn liðsins búa yfir mikilli tækni og hraða og liðið væri betra en hann hafði reiknað með. Maður íslenska liðsins í þessum leik var valinn Ólafur Hrafn Björnsson sem þrátt fyrir áður nefnd flensueinkenni, spilaði vel og skoraði annað marka okkar. Hann fékk forláta styttu af hokkíleikmanni í verðlaun.

Þetta verður mjög erfið keppni fyrir okkar lið, en eins og þeir léku í 1. og 3. leikhluta og við sem erum hér og þekkjum liðið okkar, vitum að meira býr í þessu liði, þá getum við staðið í sumum hér. Ítalir virðast vera með áberandi sterkasta liðið en þeir féllu úr 1. deildinni í fyrra. Serbar sem unnu Eista í gær 3-0, eru sterkari en reiknað hafi verið með. Okkar helsti möguleiki, eftir hafa séð öll liðin spila eru kannski Rúmenar. En eins og eitthvert spakmennið sagði, þetta kemur allt saman í ljós. Leikur gegn Serbum framundan sem verður mjög erfiður, en okkar menn eru staðráðnir í því að gera sitt besta.