Vel launuð yfirvinna á sunnudegi.

Jæja, þá er það búið. Drengirnir unnu eins og flestum ætti að vera
kunnugt, verðskuldaðan sigur til gullverðlauna.
Leiknum við Tyrki lauk 8-2. Þetta var nú hálfgert púl því Tyrkirnir höfðu
fengið þá flugu í höfuið að þeir gætu unnið okkar pilta. Þetta var með
skemtilegustu leikjum sem ég hef séð, allt þar til leið á síðasta
leikhluta er dómarinn rúmenski missti sig heldur í klaufalegum tilburðunum
við að halda niðri leiknum. Hvað um það, þetta var svo sem unninn leikur
allt frá því Ólafur skoraði opnunarmarkið á 45. sekúndu. Okkar menn höfðu svo greinilega yfirburði þótt Tyrkirnir væru mun betri nú en síðast. Í þetta sinn vissu þeir að hverju þeir gengju og þurftu ekki að berjast við niðurlæginguna frá upphafi leiks. Markvörðurinn þeirra stóð sig mun betur og harkan var gífurleg á báða bóga en engin leiðindatvik í raun.
Hlutskipti dómarans var ekki auðvelt og pirringurinn var vaxandi þegar loksins yfir lauk.

Þegar þetta er skrifað erum við í Istanbul.
Eftir heilmikla seremóníu með fyrirmannaræðum og fýrverkeríi (sem skemmdi fyrir myndatökutilburðum okkar með reykjarkófinu) þá fórum við beint upp í rútu og fengum lögreglufylgd út á flugvöll. Ekki þarf að orðlengja um ferðalagið sem verður rúmur sólarhringur. Serhat blessaður var búinn að útvega okkur vist á betri stofu yfir blánóttina þar sem sofið er í stólum og sófum. Við fljúgum til Kaupmannahafnar og þar verður um átta klukkustunda bið sem fyrirhugað er að eyða í labbitúr á Strikinu.

Mótið var ágætlega skipulagt og segja má að það eina sem skyggði á aðstæður var reykjarstybban á hótelinu sem var flestum þungbær. Mikið verður gott fyrir þá að fá reykingabann í sumar. Serhat og hans lið má eiga heiður skilinn fyrir þetta og vonandi tekst þeim vel upp í framtíðinni. Meiningin er að byggja þegar í sumar aðra íshöll við hlið hinnar og gera Erzerum að vetraríþróttaparadís. Þar á að halda heimsleika stúdenta 2011 og mér skilst þeir ætli að reyna við Vetrarólýmpíuleikana 2014 en til þess þurfa þeir væntanlega mun meira tilstand. Serhat mun vera byrjaður með unglingastarf í bænum og það verður áhugavert að sjá framhaldið. Kannski Tyrkland verði eitt af stóru nöfnunum í ishokkí einhvern tíma?

Sjáumst heima.

BGL