Flugeldasýningin sem áhorfendur nutu ekki.


Í aðdraganda orrustunnar.
(skrifað fyrir leikinn)

Loftið hérna er afar þurrt, súrefni af skornum skammti og talsverðar loftþrýstingsbreytingar þegar farið er (tvisvar á dag) milli hótels og íshallar. Þar að auki er reykt ótæpilega í sameiginlegum rýmum hótelsins, nema matsalnum. (Edda segir mér að reykingabann sé á næsta leyti í Tyrklandi).
Allt hefur þetta áhrif á líðan okkar. Hálsbólgutilfinning, hósti, blóðnasir, höfuðverkur og jafnvel ógleði, virðast vera algeng einkenni við þessar aðstæður. Einhver vægur vírus virðist líka vera að ganga með svima og vanlíðan en þetta virðist líða fljótt yfir hjá þeim sem hafa fengið.
Ég fann sjálfur talsvert fyrir þessu í fyrradag en varð þó aldrei verulega lasinn. Egill og Jóhann urðu nokkuð lasnir en bara í sólarhring um það bil.
Ólafur Hrafn er búinn að vera lasinn af þessari mini-pest síðan í gærkveldi og sleppti því morgunæfingunni. Um hádegisbil var hann mikið að hressast og ekki útilokað að hann geti verið með í kvöld. Hinir eru í fínu formi, ökklinn á Arnari Braga sem sleppti síðasta leik, er orðinn góður og sköflungurinn sem Óskar marði illa um daginn er bara í fínasta lagi.
Mikil spenna er í loftinu fyrir leikinn. Þegar við fórum á morgunæfinguna lét Sergei að vanda rútuna stoppa til að ganga síðustu kílómetrana. Það vildi svo til að við stoppuðum fyrir utan barnaskóla þegar hleypt var í frímínútur og það var stærðarinnar krakkastóð sem kom hlaupandi og fylgdi okkur niður í íshöll. Krakkarnir spurðu okkur spjörunum úr, hlógu og gerðu að gamni sínu. Þau buðu okkur líka innilega velkomna og það var einlægur tónnin í þeim kveðjum. Einhver pollinn gróf upp lítinn pappírsfána tyrkneskan. Honum var óspart veifað og þegar við gengum inn í höllina ómaði sterkraddaður krakkakórinn af miklum krafti, rétt eins og hundrað manns þegar þau kölluðu:TURKYE - TURKYE -TURKYE - TURKYE. Fáninn góði prýðir nú búningsherbergið.
Hvílíkir stuðningsmenn! Það er á hreinu að við komum ekki til með að heyra í neinum af okkar stuðningsmönnum í höllinni í kvöld.

Að orrustu lokinni.
(eftir leikinn)

Já , hvað á maður að segja? Við bjuggumst eiginlega við meiru af tyrknesku strákunum en þeir voru bæði óreyndari og í verra formi en okkar strákar sem hreinlega léku sér að þeim. 18 - 1 var lokatalan eftir að Egill henti inn einu á lokasekúndunni. Allir áttu góðan leik og þó segja megi að brotin hafi verið of mörg þá var þetta fallegur leikur af beggja hálfu.
Reyndar þurftu okkar menn að hafa talsvert fyrir þessu og það var þreytt lið sem kom heim um tíu leytið og réðist á matin sem kokkarnir höfðu haldið heitum handa okkur og tyrknesku drengjunum. Þeir síðarnefndu voru heldur vonsviknir að vonum en það var ágætur andi á milli liðana og engar ýfingar. Vonbrigðin hjá forystumönnunum í tyrkneska hokkíheiminum voru mjög greinileg þegar fyrsta leikhluta lauk 6 - 1. Tyrkir eru þjóð sem lifir mikið á stolti og þjóðernisanda og það er erfitt að þurfa að tapa stórt.
Áhorfendur voru taldir inn í höllina og reyndust 2006. Þeir létu virkilega í sér heyra framanaf en þegar ljóst var að Íslendingarnir báru höfuð og herðar yfir þeirra menn þá sljákkaði smám saman í stuðningsmannaliðinu og undir lokin voru þeir orðnir ansi spakir.
Okkar drengir sýndu Tyrkjunum alvöru íshokkí í kvöld. Þeir voru mjög heitir í upphafi leiks og viðbúnir hinu versta og tóku hlutverk sitt mjög alvarlega. Þeir byrjuðu því kröftuglega og hratt og héldu miklu tempói allan leikinn. Tyrknesku drengirnir voru hreinlega yfirkeyrðir af mun tæknilegra, hraðara og úthaldsbetra liði. Markverðirinir tveir eru bara snillingar. Gríðarleg einbeiting, vilji og tækni.
Segja má að þetta eina mark sem Tyrkirnir fengu að skora í upphafi leiks hafi verið af einskærri kurteisi við Einar tækjastjóra. Hann hafði lofað því að drengirnir fengju að snyrta hár hans ef þeir héldu hreinu sínu marki í leiknum. Einar fær því, um hríð allavega, að halda því hári sem náttúrunni hefur hingað til þóknast að skilja eftir.
Á morgun spilum við aftur gegn Búlgörum, sem töpuðu gegn Írum fyrr í dag.
Þar var ánægjulegt að sjá hvernig Írarnir, sem voru enn miður sín eftir niðurlæginguna gegn Tyrkjum fyrsta daginn, sneru 2-4 stöðu á stuttum tíma í lok leiks í 5-4 sigur. Það má segja að þar hafi írska hjartað verið á ferð en ég nenni ekki að útskýra það nánar núna. Verð að vakna kl. hálf átta fyrir morgunæfinguna.

BGL