Rok og rústir

Í dag var kappleikjafrí en það þýðir ekki að slakað hafi verið á. Æfing í tækjasal kl 8 fyrir morgunmat. Við Einar fengum að sofa svolítið lengur enda veitti svo sem ekki af að hvíla þessa gömlu fauska. Löng ísæfing um hádegið sem okkur sýndist Sergei vera verulega ánægður með. Edda mætti að vanda í einhverju tískudressi, í gær var það bleikt,
nú í dökkum litum með alveg svakalega rauðan varalit.

Seinni partinn var okkur svo ekið í rútunni niður í bæ. Ekið var eftir aðal verslunargötunni. Við vorum alveg gáttaðir á því hvernig bílstjóranum tókst að troða sér áfram í því sem virtist alger glundroði. Hér virðast gilda sú einfalda umferðarregla að sá sem treður sér á rétinn. Einnig er gjarnan lagt tvöfalt og jafnvel úti á akbraut ef mönnum dettur í hug.

Við fórum fyrst að gamalli steinbyggingu með tveimur turnum sem var byggð á 12. (eða var það 13. öld?) og hýsti háskóla. Því miður var þar lokað vegna veðurs. Gömlu borgarmúrarnir og kastalarústir frá  12. öld.  voru þarna á sama svæði við endann á áðurnefndri verslunargötu. Meira um það kannski seinna. Drengirnir höfðu ekki minnsta áhuga á rústum heldur vildu komast inn úr rokinu og kuldanum og í búðir. Byrjað var á að hemsækja Adidas búð sem þeir höðu séð á "Laugaveginum" en heldur voru þeir vonsviknir með verðin svo lítið var um verslun. Hinum megin við götuna er moska sem lýst var upp með grænu ljósi og bænakallið var í fullum gangi þegar við fórum inn í þessa flottu tiskuvörubúð. Andstæðurnar voru sláandi. Næst var það lítil "fjölverslun" á 3 hæðum og ekki vakti hún neina hrifningu heldur. Einhverjir keyptu sér skó og annað smálegt. Þaðan stungu drengirnir svo á eigin spýtur (fyrir misskilning) af stað niður götuna til að leita uppi Levis búð sem einhver hafði komið auga á.  Við sem eftir vorum í búðinni vorum dálítið áhyggjufullir því þetta var ekki alveg eftir áætlun og aumingja Edda okkar (sem í tilefni dagsins hafði komið með eldrauðan varalit og mikið tilhöfð) var að fara á límingunum af áhyggjum yfir strákunum sínum. Skömmu eftir að þeir fóru heyrðum við hvelli og læti og héldum að nú væri hafin hryðjuverkaáraás. Þegar betur var að gáð þá var að hefjast flugeldasíýning í tilefni afmælis borgarinnar sem mun vera á morgun. En mínir menn mættu tilbaka allir í hóp á nákvæmlega á umsömdum tíma. Ekki þarf að orðlengja um hversu vel virðist hægt að treysta þessum gaurum.

Þessi ferð gaf okkur dálitla innsýn í samfélag þar sem mjög framandi viðhorf, menning og lífsskilyrði ríkja. Það virðist breitt bil milli almúgans og þeirra efnuðu og á litlu svæði sá maður bæði algera eymd og niðurníðslu og svo glitrandi gulldjásn eða tískuvörur í verslunargluggum handan við hornið.

Eftir kvöldmat sem að vanda var stórkostlegur var smá hvíld og svo
liðsfundur. Þar lét  Sergei liðið fyrst gera ýmsar æfingar  fyrir huga og
kropp. Síðan fór hann með aðstoð skjávarpa í gegnum atriði í leiknum við
Búlgari sem hann hafði látið taka upp  og klippt og sundurgreint í tölvunni
í þar til gerðu hokkígreiningarforriti. Sergei leggur gríðarlega mikla
vinnu í þetta og það er svo sannarlega að skila sér.  Þessi greining hans á
leikfléttum og taktík er afar gagnleg. Drengirnir fá þarna aðra og
mikilvæga vídd í hvað þeir eru að gera.

Allir eru ágætlega frískir og mikill andi í mönnum fyrir leikinn við Tyrki
á morgun. Við vitum vel að það munu mæta yfir 2000 mjög ákafir
stuðningsmenn andstæðinganna og leiknum verður sjónvarpað beint hér í
Tyrklandi.

BGL