Írland á uppleið

Fallegur morgun með heiðskíran himinn og þægilegt frost. Nú sáum við umhverfið betur. Borgin, sem telur um 400 þúsund íbúa liggur á stórri sléttu umvafin háum fjöllum. Hér var alfaraleið fyrr á öldum, Silkivegurinn svokallaði lá hér í gegnum þennan dal. Um hann fóru flutningar á alls kyns vöru frá Asíu, meðal annars silki frá Kína. Nafnið á borginni mun komið úr arabísku "Arz-u Rûm" sem þýðir land eða vistarverur Rómverja.
 
Frábært færi virðist vera í brekkunum og hér er allt helsta skíðaíþróttafólk Tyrkja að æfingum. Hér er líka slangur af rússum við skíðaiðkun enda ekki langt til Georgíu sem áður tilheyrði Sovétríkjunum sálugu.
 
Nú var allt í einu kominn nýr, eða öllu heldur afgamall bílsstjóri í stað Adda og aftur voru bæði greipar og belti spennt á meðan hann lét gossa niður brekkuna sem hafði verið stráð sand og saltblöndu svona hér og hvar.
Óskar Grönholm hrasaði og skóf á sér sköflunginn í morgunhlaupinu svo hann fékk að liggja með íspoka meðan hinir tóku vel á því á ísnum. Arnar Bragi hvílir líka þar sem ökklin er heldur aumur þó ekki sé  tognunin alvarleg. Við spörum þá báða handa Tyrkjunum á fimmtudaginn.
 
Þess má geta að Írarnir sem voru með ísinn á undan okkur í morgun voru nett brjálaðir þar sem enginn tók á móti þeim, nema gamli krumpaði karlinn sem passar leikmannainnganginn og moppar upp drulluna sem berst inn.  Þeir fengu hvorki pekki né vatn og  og ísinn var lélegur í þokkabót. Aumingja Mohammed, íþrottafræðistúdentinn sem var með lyklana og átti að sjá um að opna í morgun, hafði sofið yfir sig og þegar Serhat, Íþróttayfirkennari, forseti hokkísambandisins í Tyrklandi og aðalmaður mótsins kom þá var Mohammed rekinn á staðnum og þar að auki felldur í faginu sem Serhat kennir. Engin elsku mamma hér.
 
Írski liðstjórinn kvartaði líka yfir því að krakkar og aðrir væru að fara eftirlitslaust inn á leikmannasvæðin og fikta í kyflum og þess háttar. Því var reddað í snatri, settur vopnaður lögregluvörður á ganginn hjá okkur og allir inngangar vaktaðir rækilega. Aumingja lögregluþjónninn sem vaktaði okkar gang var þarna allan heila daginn og ég sá aldrei neinn færa honum vistir hvað þá leysa hann af.
 
Foreldrar margra drengjanna eiga eftir að sjá mikla breytingu á þeim þegar heim kemur. Það hefur þurft að útskýra fyrir heimafólki og andstæðingum hvað eftir annað að það sé ekki einhver hræðilegur sjúkdómur að ganga í hópnum heldur bara smávegis óhefðbundnar hársnyrtingar í tilefni af fyrstu landsliðsferð margra þeirra. Ojæja... það grær aftur ef þeir fá hollt að borða.
 
Og það minnir mig á það.... matardýrðin er ekkert að rýrna. Kokkarnir eru að rifna af stolti og eiga það sko skilið. Þeir fá líka eintómt lof frá strákunum og til þess þarf allmikið eins og allir unglingaforeldrar vita.
 
Allir finna hér eitthvað við sitt matarhæfi. Sergei gat til dæmis notið þess að borða steikta lifur með soðnum kartöflum í hádeginu meðan aðrir gátu líka valið um kjúkling, pasta, fisk og ótal margt annað. Ég sjálfur fékk reyndar létta (og þarfa) áminngu um mittismál og líkamsþyngd frá kokkinum þegar ég ræddi við hann í gærkveldi um gæði lambasteikurinnar, steikta fisksins og veitinganna yfirleitt.
 
Edda fylgir okkur hvert fótmál og reddar hinu og þessu enda vilja Tyrkirnir fyrir alla muni að vel takist til.
 
Eins og áður segir eru Írarnir ekki langt frá byrjunarreit með íshokkí og mér skilst þar séu bara tvær hallir ein í Norður Írlandi, í Belfast og önnur rétt handan landamæranna en hún er einkarekin og ístíminn dýr.
Tuttugu aðilar keppa um ístímann. En þar eru eldhugar bak við starfið og fórna miklu til þess að koma íþróttinni áfram.  Þeir komast venjulega á ís um það bil aðra hverja viku. Samt var það talsverð vinna fyrir okkar stráka að ná að halda hreinu og skora þessi mörk. Það var ekkert gefið af fúsum og frjálsum vilja og Írarnir héldu vel út til enda.
 
Okkar strákar eru í góðu formi, góður andi og samvinna og þeir þurfa að missa niður um sig buxurnar til þess að framhaldið verði ekki ánægjulegt.
 
Það gekk allt vel, engin alvarleg meiðsli, bara smá eymsli.
 
Hins vegar þurfti að kalla til sjúkralið og lækni þegar Edda okkar (leiðsögudaman okkar) hætti sér of nálægt leikmannabekknum og það steinleið yfir hana! Sennilega var það anganin af  tuttugu sveittum hokkíspilurum sem varð henni um megn. Hún jafnaði sig þó fljótlega og sé öllu gamni slepptu þá var hún bara þreytt og illa sofin. Búin að vinna allt of samviskusamlega fyrir okkur.
 
Írarnir tóku tapinu vel og það fer vel á með bæði drengjunum og þeim fullorðnu. Þegar þetta er sent höfum við setið góða kvöldstund með Írska hópnum og notið lífsins og skipst á lífsreynslu.
 
Á morgun er frídagur.  Við þurfum ekki að vakna fyrr en klukkan átta og þá verður smá æfing í tækjasalnum. Svo stutt hvíld áður en strákarnir fara á ísæfingu kl 12. Eftir hádegi förum við svo í bæinn að skoða okkur um.
 
Leikurinn við Tyrkina er síðan kvöldleikur sem verður á fimmtudaginn.


BGL