Tyrkland - Dagur 5 og 6

Jæja nú fer að styttast í annan endan hjá okkur hér í Tyrklandi.  Ég hef því miður ekki komist í að skrifa síðustu tvo daga en ætla að bæta úr því hér með. Þegar þetta er skrifað er kominn sunnudagur og heimferð framundan eldsnemma í fyrramálið.  En við skulum snúa okkur að föstudeginum.

Þeir sem hafa lesið fyrri pistla frá mér eru sennilega farnir að átta sig á skipulagi dagsins hjá liðinu.  Vakning, morgunskokk, morgunmatur, ísæfing og svo hádegismatur.  Á föstudaginn áttum við leik við Búlgaríu kl. 19:00.  Strákarnir voru mjög svekktir með tapið gegn Serbíu og það þurfti að "peppa" þá talsvert upp fyrir þennan leik.  Þeir vissu sem var að Búlgararnir væru ekki mjög erfiðir viðureignar en eins og við vitum má aldrei vanmeta andstæðinginn.  Leikurinn fór frekar hægt af stað og kom fyrsta markið ekki fyrr en á 15 mínútu.
Í öðrum leikhluta sýndu strákarnir hvað í þeim býr.  Þeir gjörsamlega rúlluðu yfir Búlgarana.  Við áttum 27 skot á markið gegn 4 frá þeim.  Það var virkilega gaman að sjá okkar menn spila og þvílíkir taktar sem þeir sýndu inn á milli.  Ísland vann annan leikhlutann 6-0 og aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi lenda.  Þriðji leikhluti var ekkei alveg eins fjörugur en engu að síður mjög vel spilaður.  Lokatölur 13-1.
Það var ólíkt betra hljóð í hópnum eftir þennan leik en eftir leikinn á undan. 
Rúturnar biðu eftir okkur strax að leik loknum og rúlluðum við á hótelið, borðuðum og fórum að sofa.

Í gær laugardag var svo frídagur.  Tyrkirnir voru svo almennilegir að skaffa okkur rútur sem keyrðu okkur til Istanbúl.  Það hefur sennilega ekki komið fram áður, en mótshaldararnir sköffuðu okkur tvo hjálparkokka, til að vera liðinu innan handar.  Þau heita Consu og Gjöcke.  Þetta eru háskólanemar úr háskólanum hér í bæ og hafa reynst okkur vel.  Þau komu með okkur til Istanbúl og voru okkar leiðsögumenn.
Það var virkilega gaman að koma í þessa sögufrægu borg.  En þarna búa um 16 milljónir manna í dag.  Leið okkar lá í Evrópu hluta borgarinnar.  En borgin skiptist í tvo hluta og er annar helmingur hennar á Asíu flekanum. 
Þarna var margt að skoða.  Við kíktum inn í stóra og gamla mosku sem var byggð á árunum 1597 - 1663.  Einnig fórum við og skoðuðum einskonar neðanjarðar sal.  Þetta mannvirki var byggt neðanjarðar á árunum 597 - 620 Þarna inni voru svo tvö Medusu höfuð sem Tyrkjakeisari hafði numið á brott frá Rómverjum undir lok heimsveldis þeirra.
Strákarnir höfðu samt mest gaman af því að þvælast um markaðina og prútta við sölumennina.  Við enduðum svo daginni á því að fara í risastóra verslunarmiðstöð. 
Eftir að við komum aftur á hótelið og menn búnir að næra sig var svo brugðið á leik og tveir hópar sýndu sín atriði.  Hópunum var gefið stig og endaði hópurinn sem Pétur Maack stýrði uppi sem sigurvegari.  Atriðið sem réði úrslitum var grínþáttur um "lágvaxna" þjálfara liðsins.

Í dag sunnudag er svo síðasti leikur liðsins.  Við eigum að spila við Armeníu.  Armenía er lang slakasta liðið í keppninni og komum við til með að taka vægt á þeim, það er að segja líkamlega.  Sumir þeirra geta varla staðið á skautunum.
Hægt er að fylgjast með stöðu mála í leiknum á www.iihf.com

kv, Árni Geir