Tyrkland - Dagur 3 og 4

Nú kemur þriðji pistillinn frá Tyrklandi.  Við skulum byrja á því að fara yfir gærdaginn.  Þar sem enginn leikur var í gær var frekar rólegt yfir þessu hjá okkur.  Strákarnir fengu að sofa út....til 9:00.  Morgunskokkið var á sínum stað og eftir morgunmat var stormað á ísæfingu. 
Eftir hádegið var svo slakað á þangað til að farið var í verslanamiðstöð hér í bænum.  Mönnum fannst nú ekki mikið til þessarar verslunarmiðstöðvar koma og versluðu menn því nánast ekki neitt.
Eftir kvöldmat var slegið á létta strengi.  Búið var að skipta hópnum upp í 5 hópa.  Hver hópur átti að æfa atriði til að sýna.  Fyrstu tveir hóparnir stigu á stokk og unnu ágætis leiksigra. Einstaklingsframtakið fékk líka að njóta sín þar sem Ólafur Hrafn fékk það hlutverk að syngja afmælissönginn fyrir Andra Þór sem varð 18 ára í gær.  Ólafur hefur nú fengið atvinnutilboð frá tyrkneskum umboðsmanni sem vill fá hann til að koma fram í afmælisveislum hér í Tyrklandi. 
Það má geta þess að hárgreiðsla nýliðanna hefur vakið mikla athygli hjá innfæddum.  Myndavélar og símar eru rifnir upp um leið og strákunum bregður fyrir.  Þeir hafa fengið ágætis þjálfun í fyrirsætustörfum fyrir vikið.
Ró var kominn á kl. 23:00 að venju.

Í morgun, fimmtudag fengu strákarnir aftur að sofa út til 9:00.  Ástæðan var sú að Sergei ákvað að sleppa ísæfingunni okkar sem var sett kl. 8:00.  Honum fannst of snemmt að láta strákan vakna kl. 6:00 á leikdegi.  Í staðinn var morguninn notaður í létt skokk og smá körfubolta.  Snilli drengjanna á körfuboltavellinum var frekar takmörkuð og er það nokkuð ljóst að íshokkí hentar þeim mun betur.

Eftir hádegismatinn hvíldu menn sig fyrir átök dagsins enda mikilvægasti leikur mótsins framundan.  Serbneska liðið hafði sýnt það í þeim leikjum sem þeir höfðu þegar spilað að þeir væru með gott lið.  Þeir eru gríðarlega sterkir líkamlega og ágætlega flinkir. Leikurinn sjálfur var settur kl. 15:30  Strákarnir voru merkilega rólegir yfir þessum leik.  Fylgifiskar liðsins voru mun stressaðri en þeir.
Til þess að gera langa sögu stutta, þá töpuðum við því miður fyrir Serbunum 4-0.  Liðin eru mjög svipuð að getu.  Það sem gerði herslumuninn var gríðarlega barátta Serbana sem eru greinilega með mjög stórt hjarta.  Íslenska liðið er síður en svo slakara en þetta féll ekki okkar megin í þetta skiptið.  Strákarnir voru gríðarlega svekktir í leikslok og lái ég það þeim ekki.
Þeir fóru niðurlútir upp í rútu aftur á hótelið.  Eftir kvöldmatinn voru þeir nú búinir að jafna sig og farnir að taka gleði sína á ný.  Eins og ég hef komið inn á áður þá er ég mjög ánægður með hversu góður mórall er innan liðsins.  Þeir standa sig mjög vel og eru landi og þjóð til fyrirmyndar.
Nú eru þeir allir sofnaðir og verða vonandi tilbúnir fyrir leikinn á morgun á móti Búlgaríu.

Meira á morgun
kv, Árni Geir