Tyrkland - Dagur 2

Fyrsti leikdagur Íslands runninn upp.  Hér vöknuðu menn kl. 7:45 og fóru út að skokka.  Morgunmatur rann svo ljúflega niður áður en menn svo gerðu sig klára fyrir ísæfingu kl. 9:45.

Það er ekki laust við að ég hafi fundið fyrir smá fiðringi í mönnum enda nokkrir að fara spila sinn fyrsta landsleik.  Æfingin gekk vel fyrir sig.  Það var smá bið eftir að við fengjum pekki til þess að nota á æfingunni...skipulagið ekki alveg að virka...en allt saman reddast þetta á endanum.  Það er ekki laust við að Tyrkirnir hafi "þetta reddast" genið eins og við íslendingarnir.

Eftir æfinguna fengum við rútubilstjórana til að skutla okkur í matvörubúð.  Við erum með 2 litlar rútur fyrir liðið og er annar rútubílstjórinn orðin einn af okkur.  Hann vill allt fyrir okkur gera og lætur stjórnendur mótsins heyra það ef honum finnst vanta eitthvað upp á þjónustuna við okkur.  Strákarnir keyptu sér smá snakk og drykki.  Ég held að allir hafi líka keypt sér ávexti til þess að friða samviskuna.  Sergei heldur þeim nefninlega við efnið varðandi mataræði íþróttamanna.  Þegar á hótelið var komið hélt Sergei fund með hverri línu fyrir sig og fór yfir leikskipulagið.  Svo var stormað í hádegismat og beint í koju á eftir til að safna kröftum fyrir leikinn.

Þá er komið að því.  Fyrsti leikur Íslands og það gegn sjálfum gestgjöfunum.  Leikurinn fór aðeins brösulega af stað.  Okkar menn eitthvað aðeins stressaðir.  Tyrkir skoruðu fyrsta markið við gífurlegan fögnuð áhorfenda.  Þetta varð til þess að okkar menn vöknuðu og byrjuðu að spila sitt hokkí.  Það leið ekki á löngu þar til við skoruðum og jöfnuðum leikinn. Eftir fyrsta markið var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda.  Okkar menn gjörsamlega yfirspiluðu Tyrkina á köflum.  Við náðum samt ekki að skora nema 6 mörk í fyrsta leikhluta.  Í öðrum leikhluta var komið að dómaranum að sýna kúnstir.  Hann gjörsamlega missti sig í dómum á bæði lið.  Þó fengum við að kenna meira á því.  Ég held að við höfum nánast verið einum til tveimur færri allan leikhlutann.  Enda náðu Tyrkirnir aðeins að halda í við okkur og skoruðu eitt mark í viðbót.  Þessi leikhluti endaði 2-1 fyrir okkur.  Í þriðja leikhluta voru Tyrkirnir orðnir ansi pirraðir og ekki hjálpaði dómarinn.  Svo erum við að kvarta yfir lélegri dómgæslu heima á Íslandi.  En strákarnir sýndu hvað í þá er spunnið og tóku öll völd á vellinum.  Við áttum 19 skot á mark meðan að þeir áttu 4 skot.  4 skot af þessum 19 urðu að marki og leikar enduðu 12-2  (sjá statistik)

Strákarnir voru svo komnir í koju kl. 23:00 og sofnuðu vært.

Á morgun miðvikudag er enginn leikur.  En meira um það síðar.