Tyrkland - Dagur 1

Smá vandræði urðu með tölvupóstsamskipti þannig að fyrsti póstur frá farastjóra komst ekki til skila fyrr en núna.

Nú er dagur eitt senn á enda hér í Tyrklandi.  Við komum hér síðastliðna nótt um 02:00 eftir langt ferðalag.  Seinkun varð á vélinni frá Frankfurt til Istanbul um einn og hálfan tíma. Það kom svo í ljós þegar við lentum í Istanbul að eina tösku vantaði.  Það tók um klukkutíma að skila inn skýrslu varðandi það mál.  Rútuferð á hótelið tók svo rúman einn tíma.  Það voru því þreyttir ferðalangar sem lögðust til hvílu hér í Izmit klukkan að verða þrjú að morgni.  Hótelið er töluvert komið til ára sinna og nokkuð ljóst að íslenskir iðnaðarmenn myndu skammast sín fyrir þau vinnubrögð sem hér sjást.  Ég held að hér hljóti iðnaðarmenn að fá sér eitthvað annað en vatn að drekka eða þá reykja eitthvað annað en sígarettur.  Hér er þó allt nokkuð hreint og svo sem ekkert hægt að kvarta.  Maturinn er góður og þjónustan mjög lipur. Tyrkir eru mjög gestrisnir og vilja allt fyrir þig gera.  Þó finnst okkur íslendingunum skipulagið mætti vera betra....bíðum nú aðeins við...erum við íslendingar nú allt í einu orðnir svona skipulagðir....  

Drengirnir voru svo vaktir kl. 9:00 og fengu morgunmat. Rúta sótti þá kl.10:00 og keyrði þá á ísæfingu. Sergei keyrði þá áfram í einn og hálfan tíma enda ekki leikur í dag hjá okkur.  Hádegismatur var borðaður kl. 14:00.  Eftir matinn voru allir reknir í koju og látnir hvíla sig. 
Það kom nú í ljós að ekki þurftu allir á hvíldinni að halda.  Sett var upp rakarastofa í einu herberginu og sumir nýliðarnir fengu fría klippingu hjá þeim eldri. Þetta kallast víst busavígsla.  Það verður að segja klippurunum til hróss að ímyndunarafl þeirra er mjög öflugt.  Ég mun samt láta aðra dæma um hversu vel tókst til.  Undirritaður mun allavegana halda sig við sinn klippara í framtíðinni.   Seinnipartinn var svo horft á tvo leikhluta í leik Tyrklands og Serbíu. Staðan var 0-8 þegar við fórum aftur á hótelið. (endaði 0-12).

Það er ljóst að Serbía er það land sem við verðum að taka mjög alvarlega.  Fyrri leikurinn í dag á milli Búlgaríu og Armeníu endaði 24-1.  Armenar eru greinilega með algjört byrjenda lið.  Við verðum samt að passa okkur að ofmetnast ekki og taka vel á því strax í fyrsta leik á morgun gegn Tyrkjum.  Allir leikir Tyrkjanna eru sendir út í beinni útsendingu í sjónvarpi.
Stöðin heitir TRT3 ef einhver gæti haft aðgang að henni.  Einnig er hægt að fylgjast með stöðunni í riðlinum og allskyns tölfræði á eftirfarandi síðu http://www.iihf.com/index.php?id=686  og þar er einnig bein textalýsing á meðan á leik stendur.
Kvöldmatur var svo borðaður kl. 20:30 í kvöld.  Stuttur fundur var svo kl. 21:30 og þegar þetta er skrifað (23:00) er komin á ró, enda Sergei þekktur fyrir allt annað en agaleysi.  

Mér finnst hópurinn ná mjög vel saman.  Það er gaman að sjá hversu góðir félagar keppinautar úr þremur liðum geta verið. Engin agavandamál hafa komið upp og ég verð að hrósa strákunum fyrir jákvætt og skemmtilegt hugarfar.   Nú er kominn tími til að leggja sig enda strangt prógramm á morgun.  Ég kem til með að reyna að senda frá mér pistla á hverjum degi út ferðina ef tími vinnst til.  

Kveðja, Árni Geir Jónsson Fararstjóri