Æfingabúðum á Akureyri lokið

Æfingabúðum U18 og karlaliðsins var rétt í þessu að ljúka.  Sergei hefur valið liðið og tilkynnti það leikmönnum strax að lokinni æfingu.  Þegar þessi orð eru skrifuð er Sergei á leiðinni til síns heima en nafnalistinn verður birtur hér á síðunni sem fyrst.
 
Strákarnir hafa staðið sig mjög vel alla helgina og hagað sér í alla staði sem sannir íþróttamenn.  Eins og gengur þá þurftu einhverjir að bíta í það súra epli að komast ekki í liðið að þessu sinni, en aðeins 18 útileikmenn auk tveggja markmanna komast í liðið.  Menn mega þó ekki láta vonbrigðin slá sig út af laginu heldur líta frekar á þetta sem hvatningu til frekari æfinga, bæta það sem þarf að bæta og mæta svo tvíefldir til leiks á næsta ári.
 
Í gærkvöldi keppti U18 liðið við "gömlu" hundana í karlaliðinu og lauk þeirri viðureign með sigri þeirra eldri, 11 - 2.  Við því var svo sem að búast en engu að síður voru mjög jákvæðir sprettir hjá okkar mönnum.  Til dæmis gerði 1. línan sér lítið fyrir og vann 2 - 0, þ.e.a.s. fengu ekkert mark á sig og skoruðu tvö, það fyrra gegn 1. línu og það seinna gegn 2. línu.  Þessi "sigur" verður að teljast gott veganesti inn í komandi mót.  Í fyrstu línu eru framherjar Mattías Sigurðsson, Pétur Maack og Egill Þormóðsson, og í vörninni eru þeir Orri Blöndal og Sigurður Árnason. 


Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Egil og Pétur kasta mæðinni í búningsherberginu.