6. (keppnis)dagur

Í dag var seinni frídagurinn á mótinu og ákvað fararstjórn að hann yrði hafður í frjálslegra lagi. Partur af leikmönnunum fór í skoðunarferð á Torg hins himneska friðar og fleiri staði meðan afgangurinn lagði leið sína á svokallaðan prúttmarkað. Báðum hópum held ég að hafi þótt mikið til koma á sinn hátt. Þeir sem fóru í skoðunarferðina fóru svo þegar líða fór á daginn einnig í verslunarferð og segja má að farangur liðsins hafi þyngst all nokkuð á þessum laugardegi. Um klukkan þrjú var ísæfing og eftir hana fóru þeir allra hörðustu aftur upp á markað að versla. Eftir kvöldmat var svo eitthvað um að nýliðarnir væru klæddir upp í furðufatapartý á elleftu hæðinni en uppúr klukkan hálftíu hélt Sergei liðsfund þar sem hann lagði að mönnum að gleyma ævintýrum dagsins og fara að einbeita sér að leiknum annaðkvöld sem verður gegn Spánverjum. Þetta er síðasti leikur okkar í mótinu og að sjálfsögðu ætla menn sér sigur og ekkert annað. Annað kvöld verður síðan mótinu slitið og strax á mánudagsmorgun verður lagt af stað til Íslands. Kveðja frá Kína.

HH