5. keppnisdagur

Segja má að fimmti keppnisdagur hafi verið með frekar hefðbundnum hætti. Íslenska liðið átti leik um miðjan dag og því var æfingin fyrr en venjulega. Lítið var um vandamál fyrir fararstjóra eða aðra sem eru í fararstjórn enda liðið allt við bestu heilsu og einungis smávægileg meiðsli í gangi einsog gengur og gerist í íþróttinni. Fararstjórar fóru og skoðuðu Torg hins himneska friðar og Forboðnu borgina til að sjá um hversu mikið ferðalag væri að ræða ef einhverjir drengjanna hefðu áhuga á að fara þar daginn eftir. Rétt eftir hádegi var lagt af stað niður í skautahöll og einsog sjá má annarsstaðar, voru úrslitin okkur ágætlega að skapi. Liðið horfði síðan á tvær lotur í leik Spánverja og Kínverja áður en haldið var upp á hótel.  Kvöldmatur var tekinn og síðan var rætt við strákana hvað þeir vildu gera við þann frítíma sem þeir ættu daginn eftir og gátu menn valið milli ferðalags þess sem fararstjórar höfðu farið fyrr um daginn eða verslunarferðar. Um ellefuleytið var kominn tími á herbergi og háttinn. Ferðin hingað til hefur gengið mjög vel og vilja þeir sem hafa farið fáeinar svona ferðir áður að þetta sé einn besti hópurinn sem þeir hafi komið að. Við minnum svo aftur á síðuna hans Kristjáns ljósmyndara en hún er staðsett hér. Kveðja frá Kína.

HH