U18 ÁRA FERÐALAG TIL BELGRAD - 4. FÆRSLA

Æfingin sem minnst var á í síðasta pistli gekk einsog til var ætlast. Í gærkvöldi var síðan skemmtikvöld þar sem leikmönnum var skipt í hópa sem áttu að koma með skemmtiatriði. Hóparnir komu misjafnlega undirbúnir til leiks að mati þjálfarana. Spurningakeppni var einnnig á boðstólunum en svo mikið gekk á að starfsmenn hótelsins fóru að hafa áhyggjur af því að eitthvað innanstokks mundi undan láta.

Það var rólegur morgun í morgun. Morgunæfingu var sleppt en stuttu eftir morgunmat var farið í göngutúr. Veðrið hérna í Belgrad er dæmigert íslenskt vetrarveður svo göngutúrinn ætti allavega að vera minna mál fyrir okkar stráka en andstæðingana í leik dagsins sem vanir eru öllu betra veðri. Ástralir eru komnir um langan veg og þeir munu án nokkurs vafa leggja sig alla fram í leiknum gegn okkur á eftir. Okkar strákar munu sýna sínar sparihliðar, spila á fullu allan leikinn, og landa sigri. Stigin þrjú sem í boði eru skipta öllu máli og því segjum við bara Áfram Ísland.

Kveðja frá Belgrad


HH