U18 ÁRA FERÐALAG TIL BELGRAD - 3. FÆRSLA

Segja má að algjör rútína sé nú komin á ferðalag U18 ára landsliðsins til Belgrad í Serbíu. Leikirnir eru reyndar á mismunandi tímum en æfingar og máltíðir haldast í hendurnar við leiktíma.

Upp var runnin þriðjudagur og leikur gegn Spánverjum framundan. Þjálfararnir höfðu kvöldið áður haft valkvætt hvort leikmenn færu á æfingu eða ekki um morguninn og um tíu leikmenn nýttu fór til æfinga en restin af hópnum fór í göngutúr og skoðaði kirkju eftir að hafa snætt morgunmat. Íslenska liðið átti frekar dapran dag gegn Spánverjum og svo fór að þeir gerðu sjö mörk á okkar lið án þess að okkar mönnum tækist að svara fyrir sig. Eftir kvöldmat héldu þjálfarar síðan fund með leikmönnum en litlum fréttum fer af honum því að sá sem þetta skrifar var á sama tíma eftirlitsmaður IIHF á leik Serba og Belga sem fram fór um kvöldið. 

Morguninn eftir var æfingu sleppt en uppúr hádegi var tekinn annar fundur en á honum fór Villi og Ævar yfir smá hluta af leik okkar við Hollendinga. Bæði það sem liðið hafi gert rétt og vel en einnig það sem betur mátti fara. Um þrjúleytið var farið í göngutúr og síðan var haldið upp í höll til að mæta heimamönnum Serbum. Serbarnir vissu fyrir leikinn að í lok mótsins gæti markatala skorið úr um hvort þeir, Hollendingar eða Spánverjar fara upp. Þeir gerðu því svolítið í að reyna að pirra okkar menn með stælum en náðu satt best að segja litlum árangri. Sjálfir voru þeir hinsvegar orðnir verulega pirraðir þegar staðan var enn jöfn um miðjan leik en því miður náðu þeir að skora fljótlega eftir það. Þeir bættu síðan við þremur mörkum við í þriðju lotunni án þess að íslenska liðið næði að svara fyrir sig. Íslenska liðið átti töluvert betri leik en daginn áður gegn Spánverjum. Þar sem um kvöldleik var að ræða kom liðið ekki á hótel fyrr en um klukkan ellefu. Liðið hafði þegar borðað þær tvær máltíðir sem það á rétt á og því var haldið á fræga ameríska skyndibitakeðju og sárasta hungrið satt. Fararstjórinn fór hinsvegar á mótsfund sem var á mjög rólegum nótum og stóð stutt. Þar sem við erum heimalið áttum við rétt á að velja okkur treyjulit og bekk og að þessu sinni var valið blátt og vinstri bekkur.

Í morgun var síðan haldið í mallið og einstaka leikmaður keyptir sér eitthvað smáræði af fötum ásamt því að labba um þessa menningargersemi. Æfing er eftir hádegi en meira af því síðar.

Kveðja frá Belgrad

HH