U18 ÁRA FERÐALAG TIL BELGRAD - 2. FÆRSLA

Leikurinn gegn Hollendingum tapaðist en það sem gladdi helst var að leikmenn sýndu góða og mikla baráttu allan leikinn. Hollendingarnir sem voru í upphafi móts efstir að styrkleika í riðlinum fögnuðu líka vel og innilega í leikslok þannig að maður fékk á tilfinninguna að þeir hafi ekki átt von á mótspyrnunni en verið dauðfegnir að hafa sigur. Bæði mörk Íslands skoraði Daníel Steinþór Magnússon Norðdal, það síðara eftir að Sigurður Reynisson hafði fiskað víti eftir að komast einn í gegn. Ef liðið heldur áfram að sýna baráttuandann sem það sýndi í þessum leik þá munu stigin koma.

Liðið borðaði síðan kvöldmat um klukkan en síðan var smá hvíld áður en haldið var á leik Spánverja og Serba um kvöldið. Úrslitin í þeim leik voru nokkuð óvænt og sýna að allt getur gerst í þessum riðli. Þjálfarinn boðaði síðan herbergisskoðun klukkan 23.00 en á sama tíma hélt farastjórinn á mótsfund þar sem farið var yfir allt varðandi mótið til þessa auk þess sem liðin völdu sér treyjulit og bekki fyrir næstu tvo leiki. Sem betur fer var lítið um kvartanir á mótsfundinum og þær sem komu voru smávægilegar.  

Í dag er frídagur og mannskapurinn fékk því að sofa frameftir. Morgunmatur var tekinn klukkan 9.00 og síðan var haldið í göngutúr í rigningunni áður hádegismatur var snæddur klukkan 11.00. Hálftólf var síðan tekinn stuttur skoðunartúr í Belgrad og farið beint úr honum og á klukkustundar æfingu. Að henni lokinni var uppfyllt helsta áhugamál margra leikmanna þegar stefnan var tekin á „mollið“. Sumum þótti reyndar ansi súrt að aðeins var stoppað í klukkustund en þeir sömu gera sér vonir um að önnur ferð sé á dagskránni á næsta frídegi.  

Kvöldmatur var snæddur klukkan átta og skömmu seinna sáu nýliðar liðsins um skemmtikvöld þar sem m.a. þjálfarar voru látnir mata hvorn annan blindandi og farið var í spurningaleik. Restin af kvöldinu er síðan frjáls en á morgun bíður liðsins næsti leikur.

Kveðja frá Belgrad

HH