U18 á ferðinni II

Við höldum bara áfram að birta facebook færslur fararstjórans þótt við séum svolítið eftirá. Það sem öllu máli skiptir er að gullið er okkar.

Góðan og blessaðan daginn. Hér eru allir vaknaðir og allir virðast hressir. Erfitt að segja samt hjá sumum, þar sem þú sérð varla hvort þeir eru vakandi eða sofandi fyrst eftir að þeir koma á fætur.
En nú þarf að byrja undirbúning fyrir næsta leik sem er kl. 13:00 eða rúma 4 tíma þegar þetta er skrifað. Við slepptum morgun æfingunni þar sem Villa fannst mikilvægara að menn hvíldu sig. Flugþreytan situr aðeins í mönnum ennþá.

Strákarnir og þjálfararnir að sjálfsögðu stóðu sig með sóma í gær. Allir börðust og lögðu sig virkilega fram um að klára leikinn með stæl. Það kom okkur svolítið á óvart hversu fast heimamenn spiluðu en svo náðu við fljótt tökum á leiknum. Andstæðingarnir féllu aðeins í þá gryfju að brjóta mikið og við spilum þessvegna talsvert mikið einum fleiri á ís í fyrsta leikhluta. Náðum samt ekki að brjóta ísinn fyrr en við vorum tveimur fleiri. Þá kom vel útfært mark sem Elvar skoraði.
Í öðrum leikhluta var þetta mikil barátta en engu að síður náðum við að skora glæsilegt mark einum færri og aftur var það Elvar sem skoraði.
Síðasti leikhlutinn reyndist frekar strembinn, þar sem þreyta var greinilega farin að láta sjá sig hjá okkar mönnum. Þá kom Nicolas sterkur inn í markinu og hélt okkur inni í leiknum. Það fór nú aðeins um okkur þegar þeir minnkuðu munin þegar um 6 minútur voru eftir af leiknum. En þeir strákarnir héldu út og gott betur, settu þríðja markið einum færri og Taiwan búar einnig búnir að taka markmanninn út og setja auka mann í sóknina. Þá var það Kristján sem nánast skautaði með pökkinn inn í markið bara svona til að vera viss um að hann færi inn.

Nú er bara að krossa fingur og halda áfram á sömu braut. Búlgarar næstir.

Meira síðar.
Eitthvað bætist við af myndum í albúmið. https://plus.google.com/…/107374…/albums/6128946632327245585

Kveðja, Árni Geir.