Tap og sigur

Íslenska U20 landsliðið laut í lægra haldi fyrir Áströlum þegar liðin mættust í lokaleik 3. deildar á HM í Istanbul í Tyrklandi í kvöld. Leiknum lauk með því að ástralir gerðu þrjú mörk gegn einu marki íslenska liðsins.
Fyrirfram var talið að íslenska liðið ætti ekki síðri möguleika á sigri enda var það búið að sigla örugglega í gegnum riðilinn sinn. Einnig hafði íslenska liðið haft góðan sigur á Ný-Sjálendingum í unda úrslitunum á meðan ástralska liðið var að ströggla á móti N-Kóreu. En allt þetta taldi lítið í leiknum í kvöld. Slæm byrjun varð íslenska liðinu að falli. Loksins þegar liðið komst á skrið var það um seinan.

Sóknarþunginn í fyrstu lotu hjá íslenska liðinu var lítill og ástralir skoruðu eina mark þriðjungsins á meðan íslenska liðið skapaði sér varla færi.
Í annarri lotu héldu ástralir áfram að sækja öllu meira en íslenska liðið. Þeir bættu við tveimur mörkum með stuttu millibili um miðja lotuna og staðan því orðin erfið hjá íslenska liðinu.
Eins og áður sagði náðu okkar drengir að snúa leiknum sér í hag í síðustu lotunni og áttu töluvert hættulegri sóknir en ástralar. Upp úr einni þeirra skoraði varnarmaðurinn Snorri Sigurbjörnsson gott mark eftir stoðsendingu frá Agli Þormóðssyni.
Silfrið er því okkar þetta árið og svosem alls ekki hægt að kvarta yfir þeim árangri þar sem því fylgir sæti upp í 2. deild og þar liggur sigurinn okkar þetta árið. Ekki síður liggur sigurinn okkar í því að strákarnir hafa verið land og þjóð til sóma jafnt í leikjum, sem utan þeirra. Þarna eru á ferðinni margir framtíðar landsliðsmenn Íslands sem alls ekki hafa sagt sitt síðasta orð.

Að leik loknum var Andri Már  Mikaelsson valinn maður leiksins í íslenska liðinu.

 
Matthías Máni Sigurðarson var valinn besti sóknarmaður mótsins af stjórnendum þess.

Róbert Freyr Pálsson var valinn besti leikmaður Íslands af þjálfurum á mótinu.

Aðrir leikmenn sem valdir voru í hverjum leik,sem bestu leikmenn Íslenska liðsins eru:

1. leik Matthías Máni Sigurðarson


2. leik Gunnar Darri Sigurðsson

3. leik Ólafur Hrafn Björnsson

4. leik Egill Þormóðsson

Liðið leggur af stað um miðjan dag á morgun frá Istanbul og þeir sem fara alla leiðina að þessu sinni eru væntanlegir rétt eftir tíu annað kvöld.