Tap í síðasta leik

U18 ára landslið Íslands tapaði í gær sínum síðasta leik á heimsmeistaramótinu í Litháen er er þar með fallið niður í 3. deild.  Leikurinn var gegn Áströlum og voru bæði lið að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.  Leikurinn var mjög jafn frá upphafi til enda og mikið var skorað í upphafi leiks.  Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta 3 - 3 og í 2. leikhluta skoruðu Ástralir 1 mark án þess að okkar menn næðu að svara fyrir sig.
 
Það var því að duga eða drepast í 3. lotu með stöðuna 4 - 3 á töflunni.  Áströlum dugði jafntefli en við þurftum sigur.  Hvorugu liðinu tóks að skora lengi framan af en þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum tók íslenska liðið markmann sinn úr markinu og bætti við auka sóknarmanni.  Við það þyngdist sóknin verulega en Ástralir vörðust sem vitlausir væru.  Þegar skammt var til leikloka náði einn Ástralinn pekkinum og hreinsaði út úr svæðinu og pökkurinn rúllaði alla leið yfir í tómt mark okkar manna og þar með voru úrslitin ráðin. 
 
Þetta voru sannarlega grátleg endalok hjá íslenska liðinu en drengirnir stóðu sig engu að síður mjög vel því stór hluti liðsins barðist við flensuna allt mótið.  Álagið var ekki minna á þá leikmenn sem héldu heilsu því þeir fengu meiri ístíma en þeir eiga að venjast fyrir vikið.
 
Að ári mun liðið spila í 3. deild og þá er ekki um neitt annað að ræða en að bretta upp ermar og komast strax aftur upp í 2. deild þar sem við viljum vera og eigum heima.