Tap gegn Spánverjum í gærkvöldi

Birkir Árnason að setjann. Ljósm. Elvar Pálsson
Birkir Árnason að setjann. Ljósm. Elvar Pálsson

Í gærkvöldi urðu okkar menn að lúta í gras fyrir kraftmiklum Spánverjum.    Leikurinn var hins vegar jafn og spennandi og með smá heppni hefðu úrslitin getað verið allt önnur.  Fyrsta mark leiksins kom undir lok fyrstu lotu þegar Spánverjar nýttu sér liðsmuninn á meðan íslenska liðið sat af sér refsingu.  Fljótlega í 2. lotu juku þeir forskotið í 2 – 0, þá ekki í „power play“ en aðeins sekúndum eftir að okkar maður kom úr refsiboxinu.

Það var svo Jón Gíslason sem minnkaði muninn eftir góða sendingu frá Birni Róberti og markið virkaði sem vítamínssprauta á okkar menn sem sóttu mikið sem eftir lifði lotunnar en því miður skilaði vinnusemin sér ekki í marki.

Í 3.lotu skorðu Spánverjar enn í „power play“ og breyttu stöðunni í 3 – 1 og á brattan að sækja fyrir Ísland.  Birkir Árnason minnkaði muninn aftur fyrir Ísland með góðu skoti frá bláu línunni og að þessu sinni voru það við sem nýttum okkur liðsmuninn á meða einn spænskur var í kælingu.

Hart var barist og línum breytt fyrir síðustu mínúturnar en allt kom fyrir ekki – gestirnir skoruðu í tómt markið þegar nokkrar sekúndur voru eftir og lokastaðan 2 – 4.

Strákarnir okkar láta þó engan bilbug á sér finna og mæta sterkir til leiks í kvöld þegar „nágrannar“ okkar frá Ástralíu mæta í hús.  Gríðarlegur stuðningur var frá stúkunni í gær og áhorfendur létu heyra vel í sér - slíkur stuðningur er ómetanlegur fyrir liðið og því hvetjum við sem flesta sem mæta í kvöld - ÁFRAM ÍSLAND!!!