Staðan í úrslitaeinvíginu jöfn - næsti leikur í Laugardalnum á laugardaginn

Þá er leik númer tvö í úrslitaeinvígi SA og SR lokið á Akureyri. Bæði liðin hafa nú tapað heimaleik sínum og eru hvort um sig með einn sigur, en það lið sem fyrst sigrar þrjá leiki er krýnt Íslandsmeistarar.

Skautafélag Reykjavíkur vann deildarmeistaratitil og vann sér þannig inn heimaleikjarétt. Flestir áttu von á því að þeir mundu leggja norðanmenn á heimavelli í fyrsta leik en sú varð ekki raunin. SA kom í Laugardalinn og lagði SR á heimavelli óvænt og tók með því forystu í úrslitunum. Sama var uppi á teningnum í dag, því að flestir héldu að það yrði erfitt fyrir SR að sækja stig í rauðu ljónagryfjuna fyrir norðan. SR ingar tóku strax forystu í leiknum og létu hana ekki af hendi. Nú er allt í hnút og spennan komin upp undir suðumark.

Næsti leikur verður í Skautahöllinni í Laugardal á laugardaginn klukkan 17:00 (segi og skrifa klukkan fimm). Ljóst er að leikurinn er afar mikilvægur fyrir bæði liðin því að sigur á laugardag setur sigurliðið í þægilega stöðu.

Það er því ljóst að allt íshokkíáhugafólk verður að fjölmenna í Laugardalinn og hvetja sitt lið til dáða. Úrslitaleikir í íshokkí eru að jafnaði afar vel sóttir og því má gera ráð fyrir fjölmenni, sérstaklega í ljósi þess að leiktíminn er hagfelldur fyrir áhangendur.

Við hjá íshokkísambandinu óskum öllum áhangendum góðrar skemmtunar á laugardaginn.